Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu mála á hinu stríðshrjáða Gasa en í nýrri ályktun frá miðstjórninni er ákvörðun Ríkiskaupa um að endurnýja samning við greiðslumiðlunarfyrirtækið Rapyd fordæmd þar sem miðstjórnin segir það vera ísraelskt fyrirtæki.
Þá krefst miðstjórnin einnig sniðgöngu á Ísrael vegna hernaðaraðgerða landsins í Palestínu og þess að lög séu sett sem banni viðskipti og fjárfestingar í Ísrael.
Miðstjórnin hefur áður sent frá sér þrjár ályktanir í tengslum við átökin á sama tímabili þar sem óhæfuverk Ísraela hafa verið fordæmd og kallað hefur verið eftir raunverulegum aðgerðum af hálfu íslenskra stjórnvalda.
Og ítrekar Alþýðusamband Íslands því fyrri kröfur sínar um að allar mögulegar leiðir verði reyndar til þess að binda enda á það martraðarástand sem ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs.