Hæsta framlag allra miðað við höfðatölu

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. mbl.is/Karítas

Framlag Íslandsnefndar UNICEF til alþjóðlegra verkefna er hæst allra landsnefnda miðað við höfðatölu. Einnig er hér á landi einna mestur fjöldi heimsforeldra miðað við höfðatölu.

Þetta kemur fram í tilkynningu en ársfundur og aðalfundur UNICEF á Íslandi fóru fram í dag. Deildin fagnar 20 ára afmæli í ár.

Heildartekjur UNICEF á Íslandi á síðasta ári voru 849 milljónir. Þar af voru söfnunartekjur 727 milljónir.

„Tæp 68% af heildartekjum komu frá Heimsforeldrum sem í árslok 2024 voru 24 þúsund talsins,“ segir í tilkynningu.

Segir þar að stærstum hluta, eða tæpum 489 milljónum króna, hafi verið veitt til reglubundins hjálparstarfs UNICEF í þeim löndum þar sem þörfin er mest.

Tæpar 79 milljónir til verkefna innanlands

Þá hafi tæpri 31 milljón verið varið til neyðar- og uppbyggingarverkefna og tæpum 79 milljónum króna til verkefna innanlands. Verkefnin innanlands hafi verið við réttindagæslu, réttindafræðslu og innleiðingu barnvænna sveitarfélaga, í samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneytið.

Á árinu söfnuðust rúmlega 28,3 milljónir króna í neyðarsafnanir en rúmlega 81% gáfu landsmenn í neyðarsöfnun fyrir börn á Gasasvæðinu.

Ein breyting á stjórn

Ein breyting var gerð á skipan stjórnar Íslandnefndar UNICEF á fundinum. Bjarni Ármannsson fjárfestir kom nýr inn í stjórn í stað Jóns Magnúsar Kristjánssonar bráðalæknis.

Edda Hermannsdóttir er formaður stjórnar og Hjörleifur Pálsson varaformaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert