Hæstiréttur telur búvörulög eiga að standa

Hæstiréttur sýknaði íslenska ríkið af kröfum Innnes og sneri þannig …
Hæstiréttur sýknaði íslenska ríkið af kröfum Innnes og sneri þannig dómi Héraðsdóms Reykjavíkur við í máli sem kennt hefur verið við búvörulögin. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Hæstiréttur sýknaði íslenska ríkið af kröfum Innnes og sneri þannig dómi Héraðsdóms Reykjavíkur við í máli sem kennt hefur verið við búvörulögin.

Samkvæmt samþykktu frumvarpi til búvörulaga í mars 2024 eru kjötafurðastöðvar undanþegnar samkeppnislögum.

Rúmast innan rammans

Innnes höfðaði mál gegn samkeppniseftirlitinu þar sem héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að lagabreyting Alþingis hafi ekki lagagildi þar sem frumvarpið hafi ekki verið talið rætt við þrjár umræður á þingi.

Í dag sneri Hæstiréttur dómi héraðsdóms við og kvað upp þann dóm að breytingar Alþingis, sem gerðar voru í fyrravor, hefðu rúmast innan ramma stjórnarskrárinnar.

Deilt um gildi ákvörðunarinnar

Í málinu var deilt um gildi ákvörðunar samkeppniseftirlitsins frá í júlí 2024 um að hafna beiðni Innnes um inngrip í háttsemi framleiðendafélaga samkvæmt 5. gr. búvörulaga. Ákvörðun samkeppniseftirlitsins var reist á því að félögin féllu undir undanþáguheimildir 71. gr. búvörulaga eftir breytingar sem Alþingi hefði gert með lögum nr. 30/2024. Það væri því ekki lengur á valdsviði stofnunarinnar að grípa til íhlutunar gagnvart slíkum félögum.

Innnes reisti málatilbúnað sinn á því að samkeppniseftirlitið hefði byggt ákvörðun sína á röngum lagagrundvelli þar sem meðferð frumvarpsins til breytingalaganna hefði ekki fullnægt áskilnaði 44. gr. stjórnarskrárinnar um þrjár umræður og auk þess verið í andstöðu við 65. gr. hennar.

Hæstiréttur snýr við dómi héraðsdóms

Héraðsdómur tók undir málatilbúnað Innnes og komst að þeirri niður­stöðu að bú­vöru­lög­in hefðu ekki verið sett á stjórn­skipu­leg­an hátt.

Í niðurstöðu Hæstaréttar kom aftur á móti fram að horfa yrði til þess að matskennt væri hvenær breytingartillaga við frumvarp fæli í sér slíka gerbreytingu að Alþingi væri rétt að fara með hana sem nýtt og sjálfstætt frumvarp samkvæmt 44. gr. stjórnarskrárinnar.

Það yrði að ætla þinginu víðtækt svigrúm til mats um þau atriði sem þar skipti máli. Það væri ekki á valdsviði dómstóla að endurskoða pólitískt mat kjörinna fulltrúa á Alþingi sem búið hefði að baki þeirri breytingartillögu við frumvarpið sem komið hefði fram og þingið samþykkt við aðra og þriðju umræðu.

Því var að öllu virtu ekki fallist á að við setningu laga nr. 30/2024 hefði verið farið út fyrir það svigrúm sem þingið nyti til breytinga á frumvarpi þannig að brotið hefði verið gegn 44. gr. stjórnarskrárinnar.

Þá var ekki talið að Innnes hefði sýnt fram á að fyrirtækinu hefði verið mismunað með ólögmætum hætti með setningu laganna þannig að brotið hefði verið gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar. Því var samkeppniseftirlitið sýknað af kröfu Innnes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert