Árið 2024 hefur verið nefnt versta árið hingað til fyrir börn í ljósi átaka víða um heim. Framlag Íslandsnefndar UNICEF til alþjóðlegra verkefna er hæst allra landsnefnda og hér á landi er sömuleiðis einna mestur fjöldi heimsforeldra miðað við höfðatölu.
Þetta kom fram á aðalfundi UNICEF á Ísland sem fór fram fyrr í dag.
Þar kom einnig fram að Ísland er í hópi þeirra þjóða sem skara fram úr í velferð barna, samkvæmt nýrri ársskýrslu UNICEF á Íslandi.
„Heimurinn þarf á góðum fyrirmyndum að halda núna, það skiptir gríðarlega miklu máli. Þegar það dynja á okkur slæm tíðindi og við sjáum stórar ríkisstjórnir taka ákvarðanir um jafnvel fjárskerðingar í þessi mikilvægu verkefni, þá skiptir máli að Ísland geti risið upp og sagt og sýnt að við ætlum hvergi að hvika. Við ætlum að halda áfram að styrkja þessi lífsbjargandi verkefni fyrir börn úti um allan heim eins og aldrei fyrr,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, í samtali við blaðamann mbl.is á ársfundinum.
UNICEF á Íslandi fær styrki úr ýmsum áttum, ekki einungis frá fólki heldur einnig frá dýrum. En vitað er um hund sem er duglegur að styrkja málefnið.
„Ég held að hér þurfi allar hendur og loppur upp á dekk. Verkefni UNICEF hefur aldrei verið stærra. Við þurfum á hverri krónu að halda til þess að geta tryggt börnum bólusetningar, vatn, næringu og framtíð,“ segir Birna.
„Við erum að sjá fullorðið fólk taka ákvarðanir um stórmál svo sem vopnakaup, hernaðaruppbyggingu og afturhvarf frá verkefnum í tengslum við loftslagsbreytingar. Þau halda að þetta séu allt ákvarðanir sem hafa ekkert með börn að gera. En þetta hefur allt um framtíð þeirra að segja, bæði nútíð og framtíð. Við sjáum að heimurinn er að verða hættulegri börnum með hverjum deginum. Það er sú heimsmynd sem ætti að vera bönnuð börnum,“ segir Birna jafnframt.
Aðspurð hvort fullorðnir séu nægilega meðvitaðir um réttindi barna svarar Birna: „Réttindi barna hvíla á því að fullorðið fólk þekki réttindi. Ég held að á Íslandi séu margir meðvitaðir um réttindi barna heldur en víða annars staðar. Þau verkefni sem við erum að vinna með sveitarfélögum og skólum hafa náð stórkostlegum árangri hvað þetta varðar. En við getum öll bætt okkur í að kynna okkur Barnasáttmálann.“
Hún bætir við að innleiðing sáttmálans gangi vel hér á landi en það sé verkefni sem krefst mikillar vinnu og þarfnist margra handtaka.
Á málþingi sem haldið verður 27. maí í Veröld, húsi Vigdísar í Háskóla Íslands, verður kastljósinu beint að stöðu barna í efnameiri ríkjum heims, þar á meðal á Íslandi. Þar verður skýrslan „Report Card 19“ kynnt, sem skoðar meðal annars geðheilbrigði, frammistöðu í skóla og líkamlegt heilbrigði barna. Málþingið, sem ber yfirskriftina „Er pláss fyrir börnin?“ Er haldið í samstarfi við Heimili og skóla og Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Húsið opnar kl. 8:30 og boðið verður upp á morgunkaffi áður en dagskrá hefst.