Hörður Torfason var sæmdur heiðursmerki Samtakanna '78 síðastliðinn laugardag við hátíðlega athöfn á Hótel Borg.
Félagið vildi þakka Herði fyrir hugrekki og framlag hans til réttindabaráttu hinsegin fólks síðustu fimm áratugi, að því er segir í tilkynningu.
Hörður er einn af stofnendum Samtakanna '78 og lagði þar með grunninn að réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi.
Hörður sagði sögu sína í bókinni Tabú, sem kom út 2008. Bókin verður gefin út í endurskoðaðri útgáfu í haust.
„Árið 1975 [...] birtist tímamótaviðtal í Samúel. Ungur maður, þjóðþekktur og vinsæll leikhús- og tónlistarmaður, birtist undir nafni og mynd í opinskáu viðtali og sagði skýrt að hann væri hommi,“ er haft eftir Bjarndísi Helgu Tómasdóttur, formanni Samtakanna '78, í ræðu við afhendingu heiðursmerkisins.
Hann hafi þannig orðið fyrsti maðurinn á Íslandi til að lýsa því yfir opinberlega að hann hneigðist til eigin kyns. „Þessi maður var - og er - Hörður Torfason.“
Hörður sagðist sjálfur í ræðu sinni hafa byrjað með óljósar hugmyndir um hvernig skyldi breyta neikvæðu ástandi í jákvætt. Hann hafi staðið í óvissu en einhvers staðar hafi þurft að byrja.
„Ég trúði því að ég myndi örugglega hitta fólk á leiðinni sem væri mér sammála og hefði nægilegt þor, vilja og skilning til að slást í för með mér. Því slíkar hugmyndir framkvæmir maður aldrei einn. Þess vegna erum við hér,“ er haft eftir Herði eftir að hafa hlotið heiðursmerkið.