Mikilvægt skref í orkuöryggi Suðurnesja

Veðrið lék við verkamenn á vegum Elnos Iceland.
Veðrið lék við verkamenn á vegum Elnos Iceland. Ljósmynd/Aðsend

Fyrsta mastrið af 86 tilhuguðum möstrum í Suðurnesjalínu 2 var reist í morgun. Þessari nýju raforkulínu er ætlað að tryggja aukið orkuöryggi á Suðurnesjum, en samkvæmt Landsneti er orkuöryggið á Suðurnesjum „ekki ásættanlegt“. Ef allt gengur að óskum verður Suðurnesjalína 2 tekin í rekstur í nóvember.

Mastrið var reist á vegum byggingafyrirtækisins Elnos og stendur nú við Kúagerði á Reykjanesi við hliðina á Reykjanesbraut. Um 50 möstur hafa nú þegar verið sett saman og stefnt er að því að reisa þau hvert á fætur öðru næstu daga. 

Íbúum Suðurnesja hefur fjölgað hratt á undanförnum árum og í Reykjanesbæ hefur fjölgunin verið mest á landsvísu. Hana má að hluta til rekja til stóraukinna atvinnutækifæra í ferðaþjónustu og iðnaði og henni fylgja ýmsar áskoranir í tengslum við raforkukerfið. Eftirspurn eftir raforku hefur stóraukist í takt við íbúafjölda og stafar jafnframt af aukinni orkunotkun gagnavera og auknum umsvifum á Keflavíkurflugvelli.

Áhrif þess ef Suðurnesjalína 1 færi skyndilega úr rekstri, til dæmis vegna hraunrennslis, væri nær undantekningarlaust straumleysi á Suðurnesjum og ljóst er því að Suðurnesjalína 2 er mikilvægt skref í átt að auknu orkuöryggi.

Mastrið stendur stolt steinsnar frá Reykjanesbraut
Mastrið stendur stolt steinsnar frá Reykjanesbraut Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert