„Pólitísk stefna að hafa vexti svona háa“

Halla Gunnarsdóttir, formaður VR.
Halla Gunnarsdóttir, formaður VR. Ljósmynd/Aðsend BIG

Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, segir það pólitíska ákvörðun að hafa stýrivexti jafn háa og raun ber vitni. Hún telur það þó gott að vaxtalækkunarferlið haldi áfram. 

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands kynnti þá ákvörðun sína fyrr í morgun að lækka vexti bankans um 0,25 prósentustig. Stýrivextir eru nú 7,5%.

„Hæstu stýrivextir á byggðu bóli“

Landsbankinn og Íslandsbanki höfðu spáð því að vextir héldust óbreyttir en Arion spáði lækkun upp á 0,25 prósentustig.

„Það er eins gott að vaxtalækkunarferlið héldi áfram, það voru hagfræðingar og áhrifavaldar í efnahagsmálum að reyna að mæla fyrir því að vextir yrðu óbreyttir. Hefði það gerst væru það refsiaðgerðir til almennings fyrir það að flugfélög hækkuðu flugfargjöld um páskana sem væri óboðlegt,“ segir Halla í samtali við mbl.is.

„Hér á landi erum við með einhverja hæstu stýrivexti á byggðu bóli og mér finnst Seðlabankinn ekki hafa skýrt af hverju stýrivextir þurfa að vera svona háir,“ bætir Halla við.

Atvinnurekendur ekki staðið við sitt

Halla bendir á að þegar kjarasamningar voru gerðir fyrir rúmu ári síðan hafi launafólk tekið á sig launahækkun undir verðbólgu á þeim forsendum að atvinnurekendur myndu halda í sér með verðhækkanir.

„Atvinnurekendur eru ekki að standa við sitt. Vöruverð er að hækka og lækkanir erlendis og styrking krónunnar skila sér ekki til Íslands. Það er verið að láta skuldara og leigjendur taka skellinn, þetta er orðin þreytt formúla.“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi peningastefnunefndar fyrr í dag að vextir kæmu ekki til með að lækka frekar nema að verðbólga lækki. Seðlabankastjóri benti á það á fundinum að gengi krónunnar hefði styrkst en þrátt fyrir það hefði ekki komið fram lækkun á vöruverði innfluttra vara, það sama ætti við um olíuverð sem hefði staðið í stað þrátt fyrir lækkun olíuverðs erlendis.

„Fákeppni skýrir þetta og sú staðreynd að við höfum ekki nein tæki og tól til þess að tryggja að þeir sem geta stýrt verðlagi í landinu standi við sitt. Við erum öll látin borga fyrir það, það er öfugsnúið að flugfélög geti hækkað fargjald sitt yfir páska til þess að græða aukalega og að leigjandi í Reykjavík borgi fyrir það,“ segir Halla aðspurð að því hvað skýri þessa þróun.

Ekki hægt að hafa vexti svo háa

Halla telur núverandi stefnu Seðlabankans vera að valda miklum erfiðleikum og skaða.

„Það á að lækka vexti, það er ekki hægt að hafa þá svona háa og það er pólitísk stefna að hafa vexti svona háa. Sú stefna sem hefur verið við lýði er að valda miklum erfiðleikum og skaða. Greiðslubyrði fólks er jafnvel að aukast um tugi eða hundruð þúsunda og launahækkanir mega sín einskis andspænis þessu,“ segir Halla að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert