Samrunar sem gætu orðið stórskaðlegir neytendum

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, telur líklegt að kjötafurðastöðvar muni …
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, telur líklegt að kjötafurðastöðvar muni keppast við að klára samruna sem gætu orðið stórskaðlegir neytendum eftir dóm Hæstaréttar. Samsett mynd/FA/mbl.is/Hafþór

Félag atvinnurekenda (FA) hvetur Alþingi til að hraða eins og kostur er afgreiðslu frumvarps atvinnuvegaráðherra um að afnema breytingar á búvörulögum sem fólu í sér víðtækar undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá FA í dag.

Hæstiréttur kvað upp þann dóm í dag að breytingar Alþingis, sem gerðar voru í fyrravor, hefðu rúmast innan ramma stjórnarskrárinnar.

Þar með var dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í nóvember snúið við en héraðsdómur taldi að skilyrði stjórnarskrárinnar um að lagafrumvarp yrði að fá þrjár umræður til að hafa lagagildi hefði ekki verið uppfyllt.

Vond og skaðleg lög

Haft er eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra FA, að dómur Hæstaréttar fjalli aðallega um formið en ekki efnið.

„Við höfum ítrekað rökstutt að lögin séu vond og skaðleg fyrir samkeppni á markaði og hagsmuni fyrirtækja og neytenda, alveg burtséð frá því hvort aðferðin við setningu þeirra telst standast stjórnarskrána.

Undanþága afurðastöðvanna veldur því meðal annars að fyrirtæki sem keppa á sama markaði, kjötmarkaðnum, um sömu viðskiptavinina búa við tvennar reglur.

Annars vegar eru fyrirtæki sem flytja inn kjöt, en þau verða m.a. að lúta ströngu samrunaeftirliti samkeppnisyfirvalda og banni við samráði og samstarfi, að viðlagðri fangelsisvist.

Afurðastöðvarnar, sem eru margar hverjar umsvifamiklir kjötinnflytjendur, eru undanþegnar þessum lagaákvæðum, sem misbýður öllu jafnræði og réttlætiskennd.“

Samráð án afleiðinga

Ólafur telur líklegt að kjötafurðastöðvar muni keppast við að klára samruna sem gætu orðið stórskaðlegir neytendum eftir dóm Hæstaréttar. Því verði aðeins afstýrt ef Alþingi bregst við og samþykkir frumvarp atvinnuvegaráðherra.

„Ef lögunum verður ekki breytt hið fyrsta gætum við horft upp á að t.d. langstærstu framleiðendur og innflytjendur svínakjöts í landinu renni saman í eitt fyrirtæki án þess að samkeppnisyfirvöld fái rönd við reist.

Fyrirtæki í slátrun og vinnslu nauta- og sauðfjárafurða gætu runnið saman með tilheyrandi tjóni fyrir bæði bændur og neytendur.“

Bent er á að fram undan sé útboð á tollkvóta til að flytja inn kjöt, þar sem afurðastöðvar í innflutningi gætu haft með sér samráð um tilboð án nokkurra afleiðinga.

Alþingi þurfi að samþykkja frumvarp atvinnuvegaráðherra hið fyrsta. Þeir þingmenn sem reyni að tefja þá samþykkt gangi með opinskáum hætti erinda sérhagsmuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert