Seðlabankinn sendi rétt skilaboð

Róbert Farestveit, sviðsstjóri hagfræði- og greiningasviðs ASÍ, telur Seðlabankann senda …
Róbert Farestveit, sviðsstjóri hagfræði- og greiningasviðs ASÍ, telur Seðlabankann senda rétt skilaboð með því að halda vaxtalækkunarferlinu áfram.

Róbert Farestveit, sviðsstjóri hagfræði- og greiningasviðs ASÍ, segir ánægjulegt að Seðlabankinn hafi ekki haft skammtíma verðbólguþróun of mikið til hliðsjónar við ákvörðun vaxta. 

Pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabanka Íslands kynnti þá ákvörðun sína fyrr í morg­un að lækka vexti bank­ans um 0,25 pró­sentu­stig. Stýri­vext­ir eru nú 7,5%.

Verðbólga lækkað mikið milli ára

Verðbólga mældist 4,2% í lok aprílmánaðar og hafði þá hækkað á milli mánaða. Margir töldu vegna þess ólíklegt að vextir myndu lækka en Landsbankinn og Íslandsbanki höfðu meðal annars spáð því að vextir héldust óbreyttir.

„Maður hafði haft áhyggjur af því að Seðlabankinn myndi horfa of mikið á skammtímaþróun en hann horfir á lengra tímabil, verðbólga hefur lækkað mikið á milli ára og það eru horfur á hjöðnun fram á næsta ár,“ segir Róbert í samtali við mbl.is

Róbert telur að með því að halda vaxtalækkunarferlinu áfram sé Seðlabankinn að senda út rétt skilaboð þess efnis að aðhaldið hafi virkað og að verðbólga sé á niðurleið. 

Auknum launakostnaði ekki um að kenna

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar í dag var varað við því á að vextir muni ekki koma til með að lækka nema að verðbólga lækki enn frekar. Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri skaut föstum skotum á olíufélögin og á verslanir landsins og telur lækkun vöruverðs erlendis sem og styrking íslensku krónunnar ekki hafa skilað sér í verðlagningu hérlendis. 

„Skýringin á þessu er einfaldlega bara sú að menn ætla að taka meira til sín, þetta er eitt af því sem að viðheldur verðbólgunni hér um sinn,“ segir Róbert.

Róbert vill ekki meina að aukinn launakostnaður sé að hafa þau áhrif að verslanir og olíufélög neyðist til þess að hækka verðlag

„Þær kostnaðarhækkanir sem voru í síðustu samningum hafa ekki þessi áhrif. Uppgjör félaga bendir til þess að framlegð og framlegðarhlutfall hafi hækkað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert