Kartöflugarðar hafa nú þegar verið plægðir víða á Norðurlandi og er það allt að þremur vikum fyrr en vanalega í sumum sveitarfélögum. Veður hefur verið með eindæmum gott á landinu að undanförnu þó að útlit sé fyrir breytingar síðar í þessari viku.
Kári Gunnarsson, þjónustufulltrúi landbúnaðarmála í Skagafirði, segir í samtali við Morgunblaðið að þar hafi kartöflugarðar verið plægðir í síðustu viku. Í fyrra voru garðarnir ekki plægðir fyrr en í fyrstu vikunni í júní og er þetta því þremur vikum fyrr en á síðasta ári. Moldin er tilbúin fyrir gróðursetningu og veður hefur verið gott. Því var ákveðið að plægja kartöflugarða fyrr en áður. Segir Kári að íbúar hafi verið farnir að spyrja hvenær hægt væri að plægja garðana og hafa þeir nú þegar hafist handa við að setja niður kartöflur.
Á Húsavík er líka búið að plægja kartöflugarða á vegum sveitarfélagsins og sjást þeir á meðfylgjandi mynd.
Trausti Aðalsteinsson, verkstjóri á þjónustumiðstöð á Húsavík, segir í samtali við Morgunblaðið að eftirspurn eftir því að geta sett niður kartöflur hafi verið mikil þar í bæ og það í talsverðan tíma. Hann segist hafa verið hikandi við að byrja að plægja þar sem hann átti von á vorhreti sem ekki varð. Nú er búið að plægja og garðarnir hafa verið merktir og hólfaðir niður. Segir Trausti að mikið hafi verið sett niður af kartöflum um helgina. Húsvíkingar eru einnig fyrr á ferðinni, eins og þeir í Skagafirði, vegna góðs veðurs.
Kári og Trausti segja enga ástæðu til þess að vera hikandi við það að byrja að setja niður kartöflur svona snemma þrátt fyrir uppskerubrest í fyrra. Trausti segir ekkert hik vera þegar vorið er svona gott. Báðir telja þeir að uppskeran verði góð í ár.