Ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins agnúaðist út í lögreglustjórann á Suðurnesjum og sendi honum skammabréf í tölvupósti.
Ástæða þess var ummæli Úlfars Lúðvíkssonar lögreglustjóra í frétt sem birtist í Morgunblaðinu 24. janúar í fyrra, en þar benti Úlfar á að kerfisbundið landamæraeftirlit væri ekki fyrir hendi á innri landamærunum á Keflavíkurflugvelli, en á ytri landamærunum þyrftu þeir sem til landsins koma að framvísa vegabréfi. Um ytri landamærin koma þeir flugfarþegar sem eru frá löndum utan Schengen-svæðisins. Sagði hann farþegaeftirlit vera í skötulíki.
Gagnrýndi hann að nokkur flugfélög kæmust upp með að skila ekki farþegalistum og að hending ein réði því hvort brotamenn væru stöðvaðir á landamærum á Keflavíkurflugvelli.
Þetta féll Hauki Guðmundssyni ráðuneytisstjóra ekki í geð og veitti hann Úlfari tiltal í tölvupósti sem Morgunblaðið hefur undir höndum.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.