Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir í samtali við Morgunblaðið að ekki ætti að koma neinum á óvart að hún boði erfiðar aðgerðir í ríkisfjármálum, bæði á tekju- og gjaldahlið, líkt og fram kom í svari hennar á Alþingi við fyrirspurn Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur á mánudag.
„Það hefur legið fyrir frá upphafi þessarar ríkisstjórnar að við ætluðum að fara í almenn auðlindagjöld í fleiri en einni atvinnugrein, það er skrifað í stjórnarsáttmálann. Annars vegar að farið yrði í endurskoðun auðlindagjalda í sjávarútvegi, en síðan er að mótast vinna varðandi ferðaþjónustuna. Við teljum að það sé réttlætismál og mikilvægt fyrir ríkissjóð.
Á gjaldahliðinni hafa allir séð hagræðingartillögurnar; þær eru ekki allar auðveldar eða sjálfsagðar, annars hefðu þær verið framkvæmdar fyrir löngu. Menn loka ekki hallarekstri ríkissjóðs með auðveldum aðgerðum, en þetta eru skynsamlegar aðgerðir.“
Ertu ekki bara að tala um skattahækkanir?
„Nei, við erum ekki að tala um skattahækkanir. Við erum að tala um auðlindagjöld, við erum að tala um fiskeldi, sjávarútveg, aðgangsstýringu í ferðaþjónustu, sem síðasta ríkisstjórn eða síðasti ferðamálaráðherra talaði ítrekað fyrir en aldrei varð að veruleika, og síðan viljum við fara í sanngjarnari dreifingu á innheimtu skatta sem þegar eru innheimtir, fasteignaskatta orkumannvirkja.“
Þú nefndir stjórnarsáttmálann, en þar átti fyrst að móta heildstæða auðlindastefnu; hvað er að frétta af henni?
„Við erum núna á fullu í mótun atvinnustefnu. Það er aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar sem ber ábyrgð á því að leggja fram drög að atvinnustefnu og vinnustofu um hana strax í haust. Auðlindamálin verða inni í því.
Okkur finnst skipta máli að auðlindamálin séu ekki rædd í einrúmi. Þetta er hluti af heildarnýtingu framleiðsluþátta í hagkerfinu.“
Leitið þið út fyrir ríkisstjórnina?
„Já, það munu fleiri koma að því.“
Yfirlýsingar Daða Más
Lýsti skoðun AGS almennt
Forsætisráðherra telur að Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra hafi ekki haft uppi óvarlegar yfirlýsingar í miðju útboði á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Hann hafði þar lýst styrk íslenska bankakerfisins með almennum hætti og haft nýlegt álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í huga. Útboðið hafi gengið vel og sé til marks um bjartsýni í þjóðfélaginu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.