Viðskiptaráð Íslands lýsir áhyggjum vegna þeirra breytinga sem Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hyggst gera á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
Ná lögin m.a. yfir skammtímaleigu á húsnæði í þéttbýli en samkvæmt núgildandi lögum hefur verið heimilt að leigja út húsnæði til skamms tíma (t.d. með þjónustu á borð við Airbnb). Með breytingartillögunni á að takmarka slíka leigu við lögheimili einstaklings og eina aðra fasteign utan þéttbýlis. Einnig er lagt til að tímabinda rekstrarleyfi innan þéttbýlis til fimm ára.
Segir ráðherra markmið breytinganna vera að auka framboð íbúðarhúsnæðis innan þéttbýlis með því að draga úr skammtímaleigu. Viðskiptaráð telur aftur á móti líklegt að lögin muni hafa þveröfug áhrif.
Í umsögn sinni um lögin bendir Viðskiptaráð á að inngrip ríkisins með þessum hætti sé til þess fallið að einstaklingar ráðstafi eignum sínum á skjön við lögin.
Bæði séu skilyrði hvað varðar ráðstöfun fasteigna íþyngjandi en einnig vegna þess að fjárhæðartakmörk af skammtímaleigu hafa haldist óbreytt frá árinu 2018.
Þá lýsir Viðskiptaráð sérstökum áhyggjum af 2. gr. frumvarpsins, þar sem lagt er til að
rekstrarleyfi til gististarfsemi í íbúðarhúsnæði innan þéttbýlis verði tímabundin til
fimm ára í senn. Að mati ráðsins felur hún í sér verulega skerðingu á atvinnufrelsi og
gengur gegn réttmætum væntingum leyfishafa.
Í umsókn Viðskiptaráðs er ráðherra einnig minntur á að meginorsök hás leiguverðs orsakist af háu húsnæðisverði sem rekja megi til inngripa stjórnvalda á húsnæðismarkaði sem draga úr framboði á nýju húsnæði.
Ef vilji stjórnvalda sé raunverulega að auka framboð á húsnæðismarkaði væri mati ráðsins árangursríkara að aflétta í staðinn íþyngjandi kvöðum sem lagðar hafa verið á leigusala á síðustu árum og hafa dregið úr framboði leiguhúsnæðis.