Þungar áhyggjur af kostnaði

Í minnisblaði sveitarstjóra Borgarbyggðar kemur fram að af samtals 305 …
Í minnisblaði sveitarstjóra Borgarbyggðar kemur fram að af samtals 305 íbúum á Bifröst eru 228 einstaklingar með úkraínskt ríkisfang. mbl.is/Árni Sæberg

Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur þungar áhyggjur af mikilli hækkun kostnaðar vegna fjárhagsaðstoðar við flóttamenn, sem muni að óbreyttu hafa neikvæð áhrif á fjárhag sveitarfélagsins.

Var sveitarstjóra falið að fylgja málinu eftir vegna alvarlegrar stöðu sem upp er komin með minnisblaði sem sent hefur verið til þingmanna kjördæmisins, ráðherra, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Vinnumálastofnunar. Óskað er eftir að stjórnvöld mæti áföllnum kostnaði sem sveitarfélagið hefur orðið fyrir á yfirstandandi ári og að gerðar verði ráðstafanir til að stöðva frekari kostnaðarauka hjá sveitarfélaginu vegna fjárhagsaðstoðar við flóttamenn.

Í Borgarbyggð eru nú búsettir 180 flóttamenn á grundvelli samnings um samræmda móttöku flóttamanna og koma langflestir þeirra frá Úkraínu, sem eru búsettir í leiguhúsnæði á Bifröst. „Fyrstu tvö árin eftir komu flóttamanna til landsins endurgreiðir ríkissjóður sveitarfélögunum fjárhagsaðstoð flóttamanna en eftir það fellur kostnaðurinn alfarið á sveitarfélög,“ segir í minnisblaðinu. Borgarbyggð standi frammi fyrir því að fjárhagsaðstoð til flóttamanna sé að breyta verulega til verri vegar forsendum í rekstri sveitarfélagsins. „Borgarbyggð getur ekki setið undir því að flóttamönnum sé safnað saman á Bifröst á kostnað sveitarfélagsins,“ segir þar.

Bent er á að ekki hafi verið gert ráð fyrir að á Bifröst yrði langtímabúseta flóttamanna. „Nú er staðan sú að af samtals 305 íbúum á Bifröst eru 228 með úkraínskt ríkisfang. Stór hluti þeirra þarf síðan á fjárhagsaðstoð að halda til að greiða leiguna,“ segir í minnisblaðinu.

126 einstaklingar þiggja fjárhagsaðstoð frá Borgarbyggð í dag, þar af 105 íbúar frá Úkraínu sem búa á Bifröst. Kostnaður á mánuði vegna fjárhagsaðstoðar er um 27 milljónir kr. Á fyrsta ársfjórðungi í ár nam hreinn kostnaður 31 milljón kr. og mun að óbreyttu hækka á komandi ársfjórðungum. „Svo kann að fara að hreinn kostnaður Borgarbyggðar vegna fjárhagstoðar verði á bilinu 150-200 [milljónir kr.] á árinu 2025. Það samsvarar 150-200 þúsund krónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu í sveitarfélaginu […]“.

Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert