Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið kölluð út sem og sjóbjörgunarsveitin á Bolungarvík eftir að bátur sem er staddur norður af Hornströndum datt út úr ferilvöktun hjá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.
Þetta segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar í samtali við mbl.is. Hann segir að öll skip og bátar sem eru á hafsvæðinu umhverfis Ísland séu með tæki til að senda staðsetningu í stjórnstöðina og þegar merki hættir að berast þá þurfi gæslan að hefja eftirgrennslan og ef hún beri ekki árangur þá þurfi að ræsa út leit.
„Fyrir örfáum mínútum byrjaði báturinn aftur að senda okkur merki en við höfum ekki náð sambandi við hann þannig að við bíðum eftir að nærstaddir bátar komi á staðinn og geti gefið okkur skýrari af því sem er þarna í gangi,“ segir Ásgeir.