Tónlistarskólar í Reykjavík hafa áhyggjur af áætlun borgarinnar um að skera niður fjárframlög til tónlistarnáms um 7%. Þau lýsa einnig togstreitu í samstarfi við borgina og segja niðurskurðinn leiða til lengri biðlista og verri þjónustu.
Edda Austmann, sem situr í stjórn Samtaka tónlistarskóla í Reykjavík (STÍR), segir við mbl.is að framlög borgarinnar til tónlistarskóla hafi í raun dregist saman um 26,7% á árunum 2012-2025, þegar tillit er tekið til fólksfjölgunar í borginni og niðurskurðar til málaflokksins.
„Það hefur verið einhvers konar stefna að skera niður í tónlistarnámi,“ segir Edda og rekur sögu af niðurskurði borgarinnar; fyrst eftir bankahrunið 2008, svo aftur 2015 og síðan 2023 þegar fjárframlög hafi verið skilyrt við námsárangur og aldur.
Í síðastnefnda tilfellinu hafi loforð verið gefin um að framlög yrðu bætt seinna meir. „En það náttúrulega gerðist aldrei,“ segir Edda.
Og nú hafi borgin lagt 75 milljóna niðurskurðarkröfu á tónlistarskóla, sem veldur því að framlögin dragist saman um 7,07%.
„Þetta getur þýtt hálft upp í eitt og hálft stöðugildi á hvern skóla, sem eru gríðarlegir fjármunir,“ segir Edda.
Reykjavíkurborg gerir þjónustusamninga við einkarekna tónlistarskóla á meðan önnur sveitarfélög reka sína tónlistarskóla. Edda segir að borgin standi í raun einvörðungu undir launakostnaði. Að öðru leyti komi hún ekki að rekstri skólanna.
„Og það hefur verið gríðarlegt basl að innheimta kjarasamningsbundinn kostnað gagnvart borginni,“ bætir hún við og nefnir í því samhengi afleysingakostnað vegna veikinda.
„Þetta er búið að vera mjög erfitt síðastliðið ár og komin mjög mikil þreyta í starsfólkið,“ segir Edda um samstarfið við Reykjavíkurborg.
Nýverið sömdu kennarar og Samtök íslenskra sveitarfélaga um launahækkanir – borgin tók jafnvel forystu í undirritun samninganna – en STÍR segja ljóst að kjarasamningurinn verði fjármagnaður með „milljarðs niðurskurðarkröfu“ á Skóla- og frístundasviði.
Afleiðingarnar af þessu verða lengri biðlistar, skert þjónusta og færri störf, að því er fram kemur í drögum að ályktun STÍR sem mbl.is hefur undir höndum. Óhjákvæmilega muni skólagjöld hækka og með færri plássum verði tónlistarnám fyrir hina „útvöldu og efnameiri“.
„Niðurskurður grefur undan framtíð tónlistarnáms og menningarstarfs í landinu,“ skrifa samtökin.
Kennslustundafjöldi tónlistarskólanna í Reykjavík skólaárið 2025/26 verði um 13% færri en skólaárið 2012/13 þrátt fyrir rúma 10% fjölgun nemenda á grunnskólaaldri í borginni á sama tímabili.
Hefði kennslustundafjöldi haldið í við fjölda grunnskólanemenda í borginni hefði kennslustundafjöldinn farið úr 76 þúsund stundum í 84 þúsund, en með niðurskurðinum fari kennslustundafjöldi hins vegar niður í 66 þúsund í haust.
„Því mætti tala um 26,7% raunsamdrátt á framlögum til tónlistarskóla á árunum 2012-2025,“ segir í ályktuninni.
„Okkur finnst áhugavert að „tónlistarborgin Reykjavík“ sé að vega svona að tónlistarnámi, sem er undirstaða alls tónlistarlífs,“ segir Edda.