Undanþágur verði felldar úr gildi

Páll Gunnar Pálsson er fosrstjóri samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson er fosrstjóri samkeppniseftirlitsins. Samsett mynd/mbl.is/Hafþór/Ómar

Samkeppniseftirlitið telur brýnt að frumvarp atvinnuvegaráðherra um breytingar á búvörulögum nái fram að ganga, þar sem lagt er til að felldar verði úr gildi undanþáguheimildir frá samkeppnislögum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Ekki á valdsviði Samkeppniseftirlitsins

Innnes höfðaði mál þar sem deilt var um gildi ákvörðunar samkeppniseftirlitsins frá í júlí 2024 um að hafna beiðni Innnes um inngrip í háttsemi framleiðendafélaga samkvæmt 5. gr. búvörulaga.

Ákvörðun samkeppniseftirlitsins var reist á því að félögin féllu undir undanþáguheimildir 71. gr. búvörulaga eftir breytingar sem Alþingi hefði gert með lögum nr. 30/​2024. Það væri því ekki lengur á valdsviði stofnunarinnar að grípa til íhlutunar gagnvart slíkum félögum.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að lagabreyting Alþingis hefði ekki lagagildi þar sem frumvarpið hafi ekki verið talið rætt við þrjár umræður á þingi.

Óafturkræft tjón fyrir bændur og neytendur

Að gengnum dómi héraðsdóms skrifaði Samkeppniseftirlitið kjötafurðastöðvum og samtökum þeirra bréf, þar sem vakin var athygli á dóminum, óskað upplýsinga og lagt fyrir þær að stöðva hvers konar aðgerðir sem byggt höfðu á undanþáguheimildum sem héraðsdómur taldi að ekki hefðu öðlast lagagildi.

Eftir að hafa farið yfir forsendur dóms héraðsdóms taldi Samkeppniseftirlitið óhjákvæmilegt að fá fullnaðarúrlausn um álitaefnin sem fjallað er um í dómnum og fékk Samkeppniseftirlitið áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar.

Í dag sneri Hæstiréttur dómi héraðsdóms við og kvað upp þann dóm að breytingar Alþingis, sem gerðar voru í fyrravor, hefðu rúmast innan ramma stjórnarskrárinnar.

Í ljósi dóms Hæstaréttar ítrekar Samkeppniseftirlitið mikilvægi þess að frumvarpið verði að lögum hið fyrsta.

Samkeppnishamlandi samruni og samstarf kjötafurðastöðva geti haft í för með sér óafturkræft tjón fyrir bændur og neytendur.

Árétta verði í þessu sambandi að gildandi undanþáguheimildir eigi sér ekki fordæmi í nágrannalöndum og nefna megi að eftirliti með samrunum kjötafurðastöðva hafi ítrekað verið beitt til þess að vernda bændur gagnvart afli viðsemjenda sinna.

Segir í tilkynningunni að niðurstaða Hæstaréttar byggi í meginatriðum á því að Alþingi hafi víðtækt svigrúm til mats á því hvenær breytingartillaga við lagafrumvarp feli í sér slíka gerbreytingu að fara beri með hana sem nýtt frumvarp.

Meðferð meirihluta Alþingis á frumvarpinu sem breytti búvörulögunum hefði ekki farið út fyrir það svigrúm.

Í dómnum sé hins vegar engin afstaða tekin til þess hvort breytingarnar séu hagfelldar fyrir íslenskan landbúnað. Hæstiréttur segir það ekki hlutverk sitt að endurskoða hið pólitíska mat sem lá að baki breytingunni á búvörulögum.

„Af framangreindri niðurstöðu leiðir að lög nr. 30/2024 hafa lagagildi, að óbreyttu. Jafnframt stendur sú niðurstaða Samkeppniseftirlitsins, að því sé ekki heimilt að lögum að grípa til aðgerða vegna samstarfs og samruna kjötafurðastöðva sem reistar eru á gildandi undanþáguheimildum laganna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert