Lögreglan á Norðurlandi vestra varar við umtalsverðum bikblæðingum á þjóðvegi 1 víðs vegar um umdæmið. Bikblæðinga hefur sérstaklega verið vart í nágrenni Víðigerðis og Hvammstanga.
Þetta kemur fram í færslu lögreglunnar á Norðurlandi vestra á Facebook þar sem hún biðlar til ökumanna að gæta sérstakrar varúðar.
Á vef Vegagerðarinnar, umferdin.is, hefur einnig verið varað við bikblæðingum víða um land. Eru ökumenn hvattir til að draga úr hraða.
Bikblæðinga hefur verið vart í sunnanverðum Hvalfirði, Snæfellsnesvegi, Borgarfirði upp að Holtavörðuheiði, á Bröttubrekku, norðan Búðardals og á sunnanverðum Vestfjörðum.
Vegagerðin varar einnig við bikblæðingum við Víðigerði, Vatnsdalshóla, á Öxnadalsheiði, Ólafsfjarðarvegi, Víkurskarðsvegi, Aðaldalsvegi, við Ljósavatn, á Mývatnsöræfum, Fagradal, Fjarðarheiði og á Suðurlandi við Kerið.