Ljóst er að ekki kemur til frekari lækkunar vaxta nema að verðbólgan lækki enn frekar. Á sama tíma spáir Seðlabankinn því að verðbólga haldist svo gott sem óbreytt til ársloka og því gæti verið komið að endastöð á núverandi vaxtalækkunarferli, allavega fram yfir áramót. Þetta er meðal þess sem lesa má úr yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans í morgun þegar vextir voru lækkaðir um 0,25 prósentustig, en stýrivextir standa nú í 7,5%.
Á kynningarfundi nefndarinnar skaut Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri nokkuð föstum skotum á verslunarmenn og vörusala á landinu og sagði að margt hefði gerst í efnahagskerfinu sem hefði átt að ýta verðbólgu niður en hefði ekki gert það. Þannig benti hann á að gengi krónunnar hefði styrkst, en það hefði ekki komið fram í lækkun á vöruverði innfluttra vara.
Sagði Ásgeir jafnframt að þrátt fyrir lækkun olíuverðs á heimsmarkaði hefði sú lækkun ekki komið fram við dæluna hér á landi. Að lokum benti hann á að ljóst væri að umframframboð væri að byggjast upp á fasteignamarkaði og sölutími fasteigna að lengjast. Þrátt fyrir það hefði það ekki komið fram í verðbreytingum.
Ásgeir benti þó einnig á að launahækkanir hefðu verið umtalsverðar síðasta árið og þannig hefði launahækkun mælst yfir 8% á fyrsta ársfjórðungi miðað við sama tíma í fyrra og sagðist hann hafa áhyggjur af því að innlend framleiðsla væri að setja þennan kostnaðarauka út í vöruverðið.
Ásgeir og Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri peningastefnu, voru spurðir út í ákvörðunina um að lækka vexti núna, í ljósi þess að fjöldi hagvísa bentu jafnvel til þess að gott væri að bíða með vaxtalækkunina, og hvort vaxtalækkunin væri nú komin á endastöð.
„Eins og ég met þetta, þá finnst mér við vera bara komin á þann stað að við förum ekki lengra með vextina fyrr en við fáum verðbólguna mikið meira niður. Hún verður að fara meira niður áður en við höldum áfram á þessari vegferð. Mín túlkun á þessu og mér finnst þetta mjög skýr skilaboð. Ég sé ekki að þetta valdi einhverri óvissu heldur þvert á móti sé þetta mjög skýrt,“ sagði Þórarinn á fundinum.
Síðar sagði hann að í sínum huga væri að ná verðbólgunni mikið meira niður nær 3% verðbólgu en 4% verðbólgu, en að skiptar skoðanir væru á því meðal nefndarinnar.
Samhliða ákvörðun nefndarinnar var ritið Peningamál birt, en þar má sjá uppfærða verðbólguspá bankans. Þar kemur fram að gert sé ráð fyrir að verðbólga verði 4% í árslok og að ársmeðaltal verðbólgunnar verði einnig 4%.
Á næsta ári er gert ráð fyrir að verðbólgan hjaðni hægt og nálgist 2,5% markmiðið og verði 2,9% í árslok, en ársmeðaltalið 3,3%.
Árið 2027 gerir bankinn svo ráð fyrir að ársmeðaltalið verði í kringum 2,5%.