„Við þurfum að koma okkur út úr þessari stöðu“

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins.
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins. Ljósmynd/Aðsend

Hátt raunvaxtastig er að hafa sligandi áhrif á iðnað og hagkerfið í heild sinni að sögn Ingólfs Bender, aðalhagfræðings Samtaka iðnaðarins, sem kveðst ánægður með ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að lækka stýrivexti um 0,25% enda telji samtökin fullt tilefni til þess að halda vaxtalækkunarferlinu áfram.

Ingólfur segir að mjög lítill vöxtur sé í iðnaði þessa stundina og að ákveðin stöðnun sé að eiga sér stað.

„Þessir háu raunvextir eru að bíta og hafa áhrif á iðnað eins og aðrar greinar hagkerfisins. Við þurfum að sjá frekar þróun í þá átt að verðbólga komi niður og þá vextir í leiðinni, við þurfum að koma okkur út úr þessari stöðu til að mynda grunn í að hagvöxtur taki við sér aftur,“ segir Ingólfur í samtali við mbl.is.

„Við finnum fyrir þessu háa raunvaxtastigi og það sést í hagtölunum. Það er nánast stöðnun bæði í veltutölum og í fjölda þeirra sem starfa í iðnaðinum,“ bætir Ingólfur við og segir að iðnaðurinn vegi mjög þungt í efnahagsframvindunni.

„Óvissa og línudans“

Ingólfur telur að hægt hefði verið að færa rök fyrir meiri lækkun en 0,25%.

„Það er alltaf ákveðin óvissa og línudans hvar menn vilji hafa raunvaxtastigið. Peningastefnunefndin túlkar það sem svo að þetta sé hæfileg lækkun en það hefði alveg verið hægt að færa rök fyrir því að lækka vexti meira í ljósi stöðunnar.“

Ingólfur ítrekar þó að fyrstu viðbrögð samtakanna séu ánægja, sér í lagi í ljósi þess að ákvörðun peningastefnunefndar var einróma í því að lækka vexti, sem sýni fram á einhug í þeirri vegferð að halda vaxtalækkunarferlinu áfram.

Óbreytt staða í þrjá mánuði

Næsta vaxtaákvörðun er ekki á dagskrá fyrr en 20. ágúst næstkomandi, að öllu óbreyttu munu því stýrivextir standa í stað næstu þrjá mánuðina.

Aðspurður að því hvort hann telji varhugavert hve langt sé í næstu vaxtaákvörðun telur Ingólfur svo vera. Hann bendir þó á að ef eitthvað stórvægilegt gerist í millitíðinni þá sé alltaf hægt að boða til aukafundar hjá peningastefnunefnd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert