Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar hérlendis eru rúmir 1,5 milljarðar króna það sem af er þessu ári.
Hæsta endurgreiðslan er vegna Hollywood-myndarinnar Greenland: Migration, sem tekin var hér og skartar Gerard Butler í aðalhlutverki, rúmar 518 milljónir króna. Þetta var seinni greiðslan af tveimur vegna myndarinnar sem alls fékk því 634 milljónir endurgreiddar vegna framleiðslukostnaðar hér.
Þetta kemur fram í nýju yfirliti yfir endurgreiðslur sem birt hefur verið á vef Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Sem kunnugt er hefur verið hægt að sækja endurgreiðslu á 25% þess kostnaðar sem fellur til við kvikmyndagerð hér á landi. Árið 2022 var lögum um þetta breytt á þann veg að stór verkefni geta fengið 35% kostnaðar endurgreidd.
Endurgreiðslur vegna kvikmyndaframleiðslu námu rúmum sex milljörðum króna í fyrra og hafa aldrei verið hærri. Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu voru ríflega fjórir milljarðar greiddir út vegna framleiðslu á sjónvarpsþáttunum True Detective hér.
Næsthæsta endurgreiðslan er vegna kvikmyndarinnar Reykjavík, erlendrar myndar um leiðtogafundinn í Höfða árið 1986. Alls nam endurgreiðslan 222 milljónum króna.
Tvær íslenskar sjónvarpsþáttaraðir fengu áberandi háa endurgreiðslu og uppfylla báðar skilyrði fyrir 35% endurgreiðslu. Þetta eru Felix og Klara sem Ragnar Bragason gerir eftir handriti sínu og Jóns Gnarr. Þættirnir verða sýndir á RÚV í ár. Endurgreiðsla vegna þeirra nemur 173 milljónum króna.
Hin þáttaröðin er Reykjavík Fusion sem skartar Ólafi Darra Ólafssyni og Heru Hilmarsdóttur í aðalhlutverkum. Hún verður sýnd í Sjónvarpi Símans í haust. Endurgreiðslan nemur 201 milljón króna.
Fjölmargir íslenskir sjónvarpsþættir hafa fengið endurgreiðslur í ár. Meðal þeirra er Brjánn sem Sigurjón Kjartansson gerir, 49 milljónir króna, Pabbahelgar 2 sem fengu 62 milljónir og þriðja serían af LXS sem fékk rúmar átta milljónir.
Endurgreiðslur vegna sjónvarpsþáttanna Kaninn námu níu milljónum króna og Draumahöllin, sem Steindi Jr. og Saga Garðarsdóttir gerðu, fékk 38 milljónir króna.
Þá voru rúmar 18 milljónir króna greiddar vegna framleiðslu á Áramótaskaupi Ríkissjónvarpsins. Framleiðandi Skaupsins var Ingimar Guðbjartsson og fyrirtæki hans, i24 ehf. Þetta er umtalsvert hærra en árið áður þegar rúmar 13 milljónir voru endurgreiddar vegna framleiðslunnar. Framleiðslukostnaður Skaupsins hefur því numið tæpum 70 milljónum á síðasta ári miðað við 25% endurgreiðslu.
Ríkisútvarpið hefur síðustu tíu ár falið sjálfstæðum framleiðslufyrirtækjum að halda utan um gerð Skaupsins og hafa þeir fengið ákveðna upphæð til að spila úr. Umræddir framleiðendur hafa aftur á móti getað sótt sér endurgreiðslu til íslenska ríkisins og því hefur framleiðslan getað verið dýrari en ella.
Sem kunnugt er fær RÚV rúma sex milljarða króna af almannafé ár hvert auk tekna af auglýsingasölu. Dýrasti auglýsingatími ársins er einmitt í kringum umrætt Áramótaskaup.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.