Atkvæðagreiðsla um sameiningu í desember

Magnús Magnússon er formaður verkefnisstjórnar vegna óformlegra viðræðna um sameiningu …
Magnús Magnússon er formaður verkefnisstjórnar vegna óformlegra viðræðna um sameiningu sveitarfélaganna. Hann er jafnframt formaður byggðarráðs Húnaþings vestra. Ljósmynd/Aðsend

Formlegar viðræður um sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings vestra munu hefjast á næstunni. Stefnt er að því að kosið verði um sameininguna í hvoru sveitarfélagi fyrir sig í desember.

Í samtali við mbl.is segir Magnús Magnússon, formaður verkefnisstjórnar um sameiningu sveitarfélaganna, viðræður milli sveitarfélaganna hafa gengið vel. Verkefnisstjórnin hafi fundað fjórum sinnum síðan í janúar, og haldnir hafi verið íbúafundir í báðum sveitarfélögum.

Hvammstangi er stærsti þéttbýliskjarni Húnaþings vestra.
Hvammstangi er stærsti þéttbýliskjarni Húnaþings vestra. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

 Meiri slagkraftur

Hann segir sveitarfélögin keimlík hvað varði uppbyggingu og atvinnu – dreifbýl landbúnaðarsamfélög með einn sterkan þéttbýliskjarna hvort um sig. Sameiningin feli í sér tækifæri hvað varðar fjárhag sveitarfélaganna og einnig mögulega betri og sérhæfðari þjónustu hjá sameinuðu sveitarfélagi.

Einnig sé meiri slagkraftur fólginn í stærra sveitarfélagi, sérstaklega gagnvart ríkisvaldinu og opinberum innviðastofnunum.

Vill leggja þetta í hendur íbúa

Magnús segir viðbrögð íbúa hafa verið heilt yfir jákvæð.

„Fundirnir hafa reynst upplýsandi fyrir íbúa og góðar uppbyggilegar umræður fóru fram um áskoranir og tækifæri varðandi mögulega sameiningu.“

Magnús segir Dalabyggð og Húnaþing vestra keimlík sveitarfélög.
Magnús segir Dalabyggð og Húnaþing vestra keimlík sveitarfélög. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Magnús vill ekki tjá sig um hversu líklegt hann telji að sameiningin verði, en segir allar viðræður hafa gengið vel. „Við viljum leggja þetta í hendur íbúa“.

Á sveitarstjórnarfundi þann 8. maí sl. samþykkti sveitarstjórn Húnaþings vestra að vísa tillögu um formlegar sameiningarviðræður Húnaþings vestra og Dalabyggðar til seinni umræðu á næsta reglulega sveitarstjórnarfundi í júní. Hið sama gerði sveitarstjórn Dalabyggðar á sveitarstjórnarfundi þann sama dag.

Fleiri sveitarfélög í sameiningarviðræðum

Óformlegar viðræður milli fleiri sveitarfélaga hafa verið samþykktar á sveitarstjórnarfundum víðs vegar um land, til að mynda milli Kaldrananeshrepps og Árneshrepps.

Árneshreppur er næstfámennasta sveitarfélag Íslands og Kaldrananeshreppur vermir fimmta sætið á þeim lista. Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps samþykkti einnig samning um inngöngu sveitarfélagsins í Brothættar byggðir, verkefni á vegum Byggðastofnunar til að sporna við viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðarlögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert