Tjaldurinn er í hópi stærstu vaðfugla sem verpa á Íslandi og hann er ekki kröfuharður þegar kemur að því að velja hreiðurstæði, því það er oft á bersvæði á grýttri jörð.
Hann virðist sækja í nálægð við menn og hreiðurstæði hans þykja oft ansi skondin en tjaldapar hefur í nokkur ár gert sér hreiður nálægt bænum Höfða í Biskupstungum.
„Fyrir fáum árum gerði hann sér hreiður á miðju bílastæðinu okkar og þá var það ekki lengur bílastæði heldur tjaldstæði,“ sagði Erlendur Hjaltason á Höfða og hefur gaman af þessum litlu nágrönnum sínum.
Bílastæðið var auðvitað friðað meðan tjaldurinn var að koma upp ungum sínum en núna í vor valdi hann sér hreiðurstæði í miðju hestagerðinu. Hestarnir voru þá ekki á húsi og gerðið ekki í notkun en þegar leið að komu hestanna þurfti að finna lausn. Spurningin er þá hver á fyrsta rétt í gerðið, tjaldurinn eða hestarnir, en Erlendur var ekki lengi að svara því:
„Málið var leyst þannig að ég girti af stórt svæði með stikum í kringum hreiðrið svo hrossin stigju ekki á eggin. Lætin í tjaldinum voru svo mikil þegar hrossin komu að fuglarnir nær hröktu þau úr gerðinu en svo jöfnuðu litlu hjónin sig þegar þau sáu að þeim stafaði ekki hætta af þessum stóru boðflennum á svæðinu þeirra. Núna er tjaldurinn með um helming af gerðinu og hrossin restina.“
Aðspurður sagðist Erlendur reyna að passa upp á ungana þegar þeir skríða úr eggjum og hann telur líklegt að þetta sé sama parið sem kemur árlega til þeirra á Höfða. Fuglinn virðist öruggur með sig í sambúðinni við Höfðahjónin eins og hreiðurstæði hans bera með sér og gerir sig heimakominn árlega. Nú er beðið eftir því að þessi skemmtilegi fugl komi upp ungum sínum.
Tjaldurinn er að mestu farfugl og stærstur hluti hans fer til Bretlandseyja á haustin en 5.000-10.000 fuglar eyða vetrinum í fjörum frá Reykjanesskaga og norður í Breiðafjörð og á Suðausturlandi, eins og segir á Fuglavef Menntamálastofnunar.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.