Börn eru viðkvæmur hópur

Söngkonan, leikkonan og leikstýran Þórunn Arna Kristjánsdóttir hefur mikið unnið að barnamenningu, bæði búið til leiksýningu fyrir börn, leikið í verkum fyrir börn eins og Ballinu á Bessatöðum og leikstýrt sýningum eins og Emil í Kattholti og Fíasól gefst aldrei upp. Í viðtali í Dagmálum Morgunblaðsins segir hún að það þurfi að vanda sig sérstaklega þegar búið er til efni fyrir börn.

„Börn eru viðkvæmur hópur að því leyti að þau geta ekki tekið ákvarðanir sjálf um að koma í leikhús. Það er alltaf fullorðið fólk sem kaupir miðana. Og þeim er svo sagt: Heyrðu, við erum að fara í leikhús og það verður geggjað gaman. Fyrir vikið þurfum við sem ákveðum að gera hluti fyrir börn að vanda okkur sérstaklega og líta til þess að viljum hafa mótunandi áhrif á börnin og hreyfa við þeim.

Sem fullorðinn leikhúsáhugamanneskja vil ég fara í leikhús og láta hreyfa við mér og ég vil að börn geti líka gert það en ekki að við séum bara alltaf að tikka á það að geta selt. Hluti af því að fullorðið fólk vill alltaf kaupa eitthvað fyrir börn. Og ég hef hugað að því sérstaklega í því sem ég hef gert fyrir börn. Ég tók ákvörðun um það þegar ég gerði Ofurhetjumúsina, og fylgi í öllu sem ég hef gert fyrir börnin eftir það. að taka Tótu fimm ára með mér í ferðalagið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert