Börn með alvarlegri vanda bíða lengur

Bryndís Guðmundsdóttir, formaður Félags talmeinafræðinga, segir félagsfólk ekki endilega sátt …
Bryndís Guðmundsdóttir, formaður Félags talmeinafræðinga, segir félagsfólk ekki endilega sátt við hvernig skiptingu þjónustunnar er háttað. Samsett mynd/Eggert/aðsend mynd

Allar líkur eru á því að barn með alvarlega málþroskaröskun eða frávik þurfi að bíða lengur eftir þjónustu talmeinafræðings á stofu, heldur en barn sem greinist með minniháttar frávik og getur fengið þjónustuna í nærumhverfinu, í skóla eða leikskóla. 

Almennt er þó löng bið eftir þjónustu talmeinafræðinga og dæmi eru um að börn bíði allt að þrjú ár eftir þjónustu sem þau eiga rétt á. Erfitt er hins vegar að segja nákvæmlega til um fjölda barna sem bíða eftir þjónustu talmeinafræðinga, vegna þess hvernig fyrirkomulagi biðlista er háttað.

Þá eru mörg dæmi um að börn séu ekki gripin nógu snemma inni í skólakerfinu sem geri það að verkum að þau fá þjónustuna mjög seint á sinni skólagöngu. Þetta gerist þrátt fyrir aukna vitundarvakningu um málþroskaraskanir inni í skólum og að talmeinafræðingar reyni að auka skilning á mikilvægi þess að grípa snemma inn í sé grunur um vanda.

Þetta segir Bryndís Guðmundsdóttir, formaður Félags talmeinafræðinga, í samtali við mbl.is.

Ekki endilega sammála skiptingunni

Bryndís segir að talmeinafræðingar séu ekki endilega sammála þeirri skiptingu sem er á þjónustu við börn við sem þurfa á henni að halda. Skiptingin er þannig að sveitarfélögin bera ábyrgð á talþjálfun barna með minniháttar málþroska- og framb­urðarfrávik. Ríkið, í gegn­um Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands, greiðir aft­ur á móti fyr­ir þjón­ustu tal­meina­fræðinga við börn með al­var­legri frá­vik. 

Hef­ur þjón­ust­an við fyrri hóp­inn að ein­hverju leyti verið veitt inni í leik- og grunn­skól­um síðastliðin tíu ár, en í Reykjavík er hún veitt í gegnum þjón­ustumiðstöðvar hverf­anna. Síðari hópurinn þarf að sækja þjónustuna á stofu, þar sem biðin er gjarnan lengri.

Fyrr í þessum mánuði birtist viðtal við móður drengs á tólfta á ári í grunnskóla í Reykjavík sem beðið hefur í ár eftir þjónustu talmeinafræðings, sem hann á rétt á. Hann er með málþroskaröskun og sértækan lestrarvanda. Telst vandi hans alvarlegur og þarf hann meiri þjónustu en sveitarfélagið getur veitt. Hann getur því ekki fengið þjónustu talmeinafræðings í sínum skóla og þarf að bíða eftir því að komast að á stofu. Fyrir vikið má gera ráð fyrir því að hann þurfi að bíða lengur.

Bryndís segir talmeinafræðinga bundna af því að því að veita þjónustu samkvæmt því samkomulagi sem er til staðar við ríkið annars vegar og sveitarfélögin hins vegar.

„Svakalegt“ að drengurinn hafi ekki verið gripinn

Foreldrar drengsins tjáðu kennurum ítrekað áhyggjur sínar af málþroska hans og lestrarvanda árum saman, eða nánast frá upphafi skólagöngunnar, áður en eitthvað gerðist. Það var ekki fyrr en móðirin fékk nóg og skrifaði harðorðan póst til skólans að hjólin fóru að snúast og drengurinn komst loks í greiningarviðtal hjá talmeinafræðingi.

Bryndís segir það „svakalegt“ að drengurinn hafi ekki verið gripinn fyrr inni í skólakerfinu þannig að mál hans kæmist í réttan farveg og hann fengið þjónustu fyrr.

„Það er fræðsla inni í skólunum og leikskólum og alltaf verið að tala um málþroskaröskun og vitneskju um málþroskaröskun í skólakerfinu. Það er verið að reyna að tala um hvað þetta er og auka skilning inni í skólunum. Því fyrr, því betra, eins og við vitum.“

Þegar búið er að meta börn geta bæði foreldrar og starfsfólk skólanna nýtt sér ýmsar ráðleggingar og beitt aðferðum til að aðstoða börnin á meðan beðið er eftir þjónustu talmeinafræðings.

„Talmeinafræðingar reyna eins og þeir geta til að fræða foreldra og skóla. Það er hægt að gera ýmsar æfingar í skólanum,“ segir Bryndís, en þá skipti miklu máli að allir leggist á eitt við að aðstoða barnið.

Bregðast rangt við ef þau skilja ekki fyrirmæli

Bryndís vinnur í dag sjálf með fullorðnum en vann áður með börnum úti á landi og segir hafa verið aðdáunarvert að sjá þegar allir gripu boltann.

„Það var svo skemmtilegt, þá var þetta komið inn í hópastarf á leikskólanum til dæmis. Þá gerði maður kannski minnst sjálfur, en allir gripu boltann. Nú er verið að setja svo mikið á kennara en ef þeir hefðu tíma þá væri hægt að gera ýmislegt.“

Bryndís segir vandamálið í raun tvíþætt, skortur sé á talmeinafræðingum og þá þurfi meiri upplýsingar og þekkingu úti í samfélaginu.

„Við getum aðlagað umhverfið og gert ýmislegt. Til dæmis barn sem skilur ekki fyrirmæli, auðvitað bregst það við á rangan hátt, eða á erfitt með að taka eftir, en ef það er hægt að aðlaga og það er það sem kennarar eru stundum að reyna, en stundum er hraðinn í samfélaginu of mikill.“

Hún segir umræður hafa skapast á meðal talmeinafræðinga eftir að viðtal við móður drengsins birtist á mbl.is og að margir hefðu sagt að þeir þekktu sambærilegar sögur af börnum með málþroskavanda sem ekki hefðu verið gripin.

„Það eru oft rólegu krakkarnir sem læra alltaf heima. Þetta á ekki bara við um málþroskavanda, þetta getur líka verið stærðfræði eða eitthvað annað,“ útskýrir hún.

Vandi getur þróast yfir að vera alvarlegur

Þeir sem eru með vægari vanda eiga rétt á að fá fjóra til sex tíma hjá talmeinafræðingi í nærumhverfinu, en Bryndís segir það yfirleitt ekki nóg. Oft sé óskað eftir fleiri tímum en það er erfitt þar sem biðin eftir þjónustunni er svo löng. Þá geti vandi sem í fyrstu taldist vægur verið skilgreindur sem alvarlegur síðar meir.

Börn þurfi því oft líka að sækja þjónustu á stofu eftir að hafa fengið þjónustu í nærumhverfinu. Það sé því ekki alveg svo klippt og skorið að börn fái annað hvort þjónustu í nærumhverfi eða á stofu.

Talmeinafræðingar sleppi þó sjaldan hendinni af börnunum eftir þessa fáu tíma og börn með fjölþættan vanda þurfi oft meiri þjónustu. Þá hverfi sértækari málþroskaraskanir ekki sisvona þegar barn nær fullorðinsaldri. 

Ekki hægt að sjá stöðuna á biðlistum

Bryndís segir erfitt að segja nákvæmlega til um hvað bið eftir þjónustu talmeinafræðinga í nærumhverfinu er löng, en hún sé ekki ásættanleg. Biðin sé mislöng eftir hverfum borgarinnar og eftir því hvar á landinu barnið er statt. Það fari bæði eftir fjölda talmeinafræðinga sem starfa hjá þjónustumiðstöðinni, þar sem það á við, og fjölda barna sem þurfa á þjónustunni að halda.

Tveir starfshópar á vegum ríkisins eru nú starfandi með það huga að gera breytingar, annars vegar á skiptingu þjónustunnar, þannig að talmeinafræðingar geti unnið að víðtækari málum. Hins vegar við að skoða biðlistamálin.

Eins og fyrirkomulagið er í dag er enginn miðlægur grunnur þar sem fólk skráir sig á biðlista og getur fylgst með hvenær röðin kemur að því.

Fólk skráir einfaldlega á sig á biðlista hjá sem flestum talmeinafræðingum í þeirri von um að komast að, en engin leið er að vita, hvorki fyrir þá sem bíða eftir þjónustunni né talmeinafræðingana, hve biðin er löng hjá hverjum og einum.

Bryndís segir það stundum geta tekið langan tíma fyrir talmeinafræðinga að hringja í fólk þegar kemur að því, vegna þess að fólk dettur ekki sjálfkrafa út af biðlistum annarra talmeinafræðinga þegar það kemst að einum stað.

„Vitneskjan um það hve mörg börn eru á biðlistum liggur því ekki alveg fyrir,“ segir Bryndís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert