Draumurinn að deilibíllinn sé númer eitt

Sæunn segir Íslendinga mikla bílaþjóð en þeir séu í auknum …
Sæunn segir Íslendinga mikla bílaþjóð en þeir séu í auknum mæli farnir að nýta sér deilibíla frá Hopp. Ljósmynd/Aðsend

„Deilibíllinn getur verið bíll númer tvö en draumurinn er að hann sé bíll númer eitt,“ segir Sæ­unn Ósk Unn­steins­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Hopp, í sam­tali við mbl.is.

Hún segir Íslendinga mikla bílaþjóð en þeir séu í auknum mæli farnir að nýta sér deilibíla fyrirtækisins, sérstaklega í stað þess að gera út tvo einkabíla.

Hopp hóf að gera út deilibílaleigu árið 2021 og voru þá bifreiðarnar sem hægt var að leigja með Hopp-appinu 11 talsins. Nú eru bifreiðarnar orðnar 50 og er bæði hægt að leigja fólksbíla og sendibíla. 

Sæunn segir áhugann vera mikinn hjá almenningi en 5.500 notendur reiði sig á deilibílana árlega. Einnig sé sífellt algengara að fyrirtæki séu farin að nýta sér bílana.

Með notkun bílanna geti fyrirtæki greitt fyrir sannarlega eknar mínútur í stað þess að vera með bifreiðar í eigu fyrirtækis eða á langtímaleigu sem þarf að sinna með kostnaði sem því fylgir. Svo standi þeir meira og minna tómir.

„Deilibílarnir eiga í rauninni ekkert að þurfa nein stæði. Þeir þurfa bara stæði til að staldra við og taka við nýjum notendum.“

Mikil áhersla á að bílarnir séu hreinir

Hefur umgengni á bifreiðunum verið til vandræða?

„Nei, það hefur ekki verið vandamál. Við pössum að halda bílunum hreinum. Við hlöðum þá enn þá þannig að við komum mjög reglulega að þeim,“ segir Sæunn.

„Við finnum hvað notendurnir gæta sín mjög mikið. Auðvitað er alltaf svartur sauður einhvers staðar sem skilur eftir sig eitthvað rusl. Við leggjum mikinn metnað í að halda þeim hreinum því að ég trúi því að ef þú sest inn í hreinan bíl þá skilar þú honum hreinum en ef þú sest inn í skítugan bíl þá skilar þú honum kannski skítugri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert