Einn er látinn eftir að eldur kviknaði í íbúð fjölbýlishúss í vesturbæ Reykjavíkur í morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Fram kom í frétt mbl.is fyrr í dag að þrír fullorðnir karlmenn hefðu verið fluttir á bráðamóttöku eftir að sprenging og eldur komu upp í kjallaraíbúð.
Tilkynning um eldinn barst kl. 10.10. Þrír voru í íbúðinni og voru hinir fluttir á slysadeild, en annar þeirra er alvarlega slasaður. Mikill viðbúnaður var á vettvangi, en síðan tók við eldsupptakarannsókn tæknideildar lögreglu, að því er segir í tilkynningu lögreglunnar.
Lögreglan segist ekki geta veitt frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.
„Það var eldur í fleiri en einu rými í húsinu en þá má segja að greiðlega hafi gengið að slökkva hann og okkar fólk stóð sig frábærlega,“ sagði Vernharð Guðnason, deildarstjóri á aðgerðasviði slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is fyrr í dag.
Lögregla fer með rannsókn málsins og kannar eldsupptök.