Engin gjöld vegna færslna milli EES-ríkja í evrum

„Þarna er verið að gera einstaklingum einfaldara að greiða yfir …
„Þarna er verið að gera einstaklingum einfaldara að greiða yfir landamæri, hvort sem það eru skólagjöld, áskriftir af tímaritum eða millifærslur til fjölskyldu eða vina erlendis.“ Ljósmynd/Colourbox

„Fyrir okkur er þetta kannski ekki stærsta málið en þetta er eitt af þessum litlu málum og margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna um frumvarp til laga um greiðslur yfir landamæri í evrum.

Frumvarpið kveður á um að gjöld fyrir greiðslur í evrum til ríkis innan EES skuli vera þau sömu og fyrir samsvarandi greiðslur innan lands í innlendum gjaldmiðli.

Það þýðir á mannamáli að þar sem engin gjöld eru almennt tekin vegna millifærslna innan Íslands í íslenskum krónum verði ekki tekin gjöld fyrir greiðslur í evrum milli EES-ríkja.

Skref í rétta átt

Breki segir að Neytendasamtökin fagni fyrirhugaðri lagasetningu sem er innleiðing úr Evrópulöggjöf. Frumvarpið sé eitt af þessum skrefum í rétta átt, eins og hann orðar það.

„Þarna er verið að gera einstaklingum einfaldara að greiða yfir landamæri, hvort sem það eru skólagjöld, áskriftir af tímaritum eða millifærslur til fjölskyldu eða vina erlendis.“

Í dag er í hvert sinn rukkað um nokkra þúsundkalla fyrir þetta viðvik en hér eftir verður það ekki heimilt og þetta er bara hluti af þessu fjórfrelsi og frjálsu flæði fjármagns milli EES-ríkja.

Seðlabankinn áætlar að heildarkostnaður einstaklinga af slíkum erlendum millifærslum hafi numið um 130 milljónum króna árið 2023 en ekki liggja fyrir upplýsingar fyrir síðasta ár.

Breki segir að þegar fyrirtæki greiði fyrir sínar vörur hafi þau hingað til þurft að borga þetta gjald en hér eftir verði það ekki heimilt.

„Það mun væntanlega sjást í vöruverði. Það er bara verið að slétta krumpur í ferlinu og þetta er bara hið besta mál,“ segir Breki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert