„Hér var rætt við fólk með grundvallaratriðin á hreinu,“ segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is. Hún var á Akureyri í morgun og hélt þar, nýkominn með áætlunarvélinni að sunnan, stuttan en snarpan stjórnmálafund.
Fundurinn var haldinn á Akureyrarflugvelli, í nýju flugstöðinni þar. Raunar voru flugmálin talsvert rædd á fundinum, það er uppbygging innviða á Norðurlandi. Voru fundarmenn á einu máli um að þeir þyrftu að standa á pari við hvað annarsstaðar gerist þannig að byggðir norðanlands hefðu hæfni í samkeppni við höfuðborgarsvæðið og útlönd.
Kristrún er nú á fundaferð um Norðausturkjördæmi, hvar þau Logi Einarsson nýsköpunar- og háskólaráðherra og þingmaður kjördæmisins, fara saman um svæðið og ræða við fólk. Þar var flugvallarfundurinn fyrsta stopp. Strax að honum loknum, nú á tíunda tímanum, fóru ráðherrarnir svo saman áfram með vél Norlandair austur til Vopnafjarðar, hvar þau halda opinn stjórnmálafund nú í hádeginu.
„Svona fundir út um land eru afar mikilvægir, bæði fyrir fólkið og okkur í stjórnmálunum,“ sagði Kristrún.
Margt brann á fundargestum og spurningar þeirra voru frumlag umræðunnar. Þar kom fram í svörum forsætisráðherra að margt hefði verið skoðað til þess að sá fjöldi ferðamanna sem kæmi til landsins dreifðist betur.
Aðgerðir í eldneytismálum kæmi þar til greina. Allt þetta héldist í hendur við að stefna ríkisstjórnarinnar væri að jafna betur búsetuskilyrði milli landhluta. Þar yrðu verkin látin tala sem skipti aðalmáli, en ekki til dæmis hvort fulltrúa landsbyggðar vantaði í stjórn opinberra fyrirtækja eins og Isavia, en gagnrýni á slíkt kom fram á fundinum.
Óskir um hertar aðgerðir gegn Ísrael voru bornar fram á fundinum og þá gagnrýni á að íslensk stjórnvöld skiptu við fyrirtæki í greiðslumiðlun þar í landi. Um það sagði ráðherrann að óhægt hefði verið um vik og að áframhaldandi stjórnmálasamband Ísland við Ísrael væri best að halda, enda væri þannig hægt að hafa einhver áhrif í hinu alþjóðleg umhverfi.
Sameining afurðastöðva í landbúnaði, farsímabann og samræmd próf í grunnskólum voru einnig til umfjöllunar. Einnig þörf á efldum stuðningi við íþróttafélög á landsbyggðinni, málefni sem Logi Einarsson ráðherra sagði í skoðun í samhengi við margt annað.