Íbúar við Skyggnisbraut í Úlfarsárdal eru óttaslegnir yfir því ástandi sem skapast hefur í hverfinu. Alvarleg stunguárás var í gær framin þar um hábjartan dag, þar sem einn var handtekinn og annar hlaut alvarlega áverka.
Íbúi í hverfinu sem ekki vill láta nafn síns getið segir árásina, sem hann varð vitni að, ekki vera einsdæmi og að lögregla hafi ítrekað verið kölluð til og haft afskipti af sömu mönnum og viðriðnir voru árásina í gær.
Íbúinn segir um hóp erlendra manna að ræða og að þeir haldi hverfinu í heljargreipum með ofbeldi en einnig áreitni í garð nágranna.
Á myndskeiðum sem náðust af árásinni má sjá þegar árásarmaðurinn ræðst að tveimur mönnum úti á miðri götu með stóru eggvopni sem líkist sveðju. Fjöldi fólks varð vitni að árásinni, þar á meðal börn sem voru á leið heim úr skóla þegar árásin varð.
Er þetta í fyrsta sinn sem svona á sér stað í hverfinu?
„Nei, þetta er ekki í fyrsta skipti sem hringja þarf á lögregluna. Lögreglan hefur marg oft komið hingað og haft afskipti. Fyrir jól var líka maður með sveðju að reyna brjótast inn í sömu blokk,“ segir íbúinn.
„Þá hefur kona í þessari blokk þurft að láta manninn sinn fylgja sér niður í bílakjallara, þar sem hún þorir ekki að fara ein af ótta við þessa menn.“
Íbúinn tekur jafnframt fram að um menn af arabískum uppruna sé að ræða.
„Þessir menn eru bara að áreita konur hér,“ segir hann.
„Þetta er bara ekki eitthvað sem maður er vanur. Og þetta lítur ekki vel út ef þetta á að verða daglegt brauð.“
Þá segist íbúinn einnig vera þakklátur því að ekki hafi farið verr þegar árásin varð. sérstaklega miðað við hve mörg börn voru skammt undan þegar árásin varð.
„Það er mjög mikið af börnum og unglingum á ferðinni akkúrat þegar árasin verður. Sonur minn og vinur hans voru nýkomnir upp brekkuna og voru ekki langt frá þegar þetta gerist,“ segir hann.
„Svona hegðun í umhverfi manns veldur manni bara verulegum óþægindum, sérstaklega þegar líf barna manns er í hættu.“