Ítrekað sektaður fyrir að leggja í einkastæði sínu

Maðurinn hefur nokkrum sinnum fengið sekt fyrir að hafa lagt …
Maðurinn hefur nokkrum sinnum fengið sekt fyrir að hafa lagt í einkastæði við húsnæði sitt í Vesturbænum. Samsettmynd/mbl.is/Sigurður Bogi/RAX

Íbúi í gamla Vesturbænum segir farir sínar ekki sléttar en hann hefur ítrekað lent í því að vera sektaður fyrir að leggja í einkastæði fyrir utan heimili sitt. Bílastæðasjóður hefur ekki viljað fella niður sektirnar þrátt fyrir að bílastæðið sé á lóð hans. 

„Þetta er orðið virkilega þreytt. Það er rukkað [í bílastæði] til níu þarna alla daga, það liggur við að maður geti ekki einu sinni fengið fólk í heimsókn lengur,“ segir Borgar Þór Þórisson, íbúi í gamla Vesturbænum, í samtali við mbl.is. 

Nú síðast á mánudag fékk Borgar sekt fyrir að hafa lagt í einkastæði sitt við húsnæði sitt í Vesturbænum.

Hefur hann óskað eftir endurupptökubeiðni á málinu en af myndum að dæma er bíll Borgars innan marka. 

„Konan mín segir að ég hafi bara lagt upp á tíu,“ segir Borgar. 

Úr myndavélakerfi Bílastæðasjóðs.
Úr myndavélakerfi Bílastæðasjóðs. Ljósmynd/Aðsend
Borgar hefur óskað eftir endurupptöku.
Borgar hefur óskað eftir endurupptöku. Ljósmynd/Aðsend

Ekki borist svar við beiðninni

Bílastæðasjóður hefur nýlega tekið í notkun bíl með myndavélabúnaði sem ekur um á gjaldskyldum svæðum og skannar númeraplötur bíla sem lagt er í bílastæði borgarinnar.

Eftir að bíllinn hefur skannað númeraplötuna flettir starfsmaður Bílastæðasjóðs upp hvort búið sé að greiða fyrir bílastæðið. Ef ekki fær viðkomandi sekt.

Kristín Þórdís Ragnarsdóttir, sérfræðingur hjá Bílastæðasjóði, sagði í samtali við mbl.is í upphafi aprílmánaðar að enn væru hnökrar í nýja kerfinu en fólki væri bent á að senda endurupptökubeiðnir ef það teldi sig hafa fengið sekt fyrir rangar sakir. 

Sem fyrr segir hefur Borgar óskað eftir endurupptökubeiðni en ekki hefur borist svar frá borginni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert