Kominn í leyfi frá Alþingi og er á leið í áfengismeðferð

Ingvar Þóroddsson.
Ingvar Þóroddsson. mbl.is/María Matthíasdóttir

Ingvar Þóroddsson, þingmaður Viðreisnar og annar varaforseti Alþingis, hefur tekið sér leyfi frá þingstörfum til að fara í áfengismeðferð á Vogi.

Ingvar greinir frá þessu í færslu á Facebook.

„Seinasta haust horfðist ég í fyrsta skiptið í augu við það að ég og áfengi ættum ekki samleið. Ég sá að ég ætti við drykkjuvanda og stríða og þyrfti að hætta. Ég tók mikilvæg en á köflum erfið skref í rétta átt og tókst nokkuð vel að snúa blaðinu við þó ég segi sjálfur frá,“ skrifar Ingvar í færslunni.

Hann segir að síðan hafi skollið á með þingkosningum og hann kjörinn þar inn, sem ekki hefði ekki gerst hefði hann ekki orðið edrú fyrr um árið.

Er miður mín gagnvart vinum og fjölskyldu

„Því miður hefur orðið bakslag í þessum efnum. Ég missteig mig, og get engum um kennt nema sjálfum mér. Ég er miður mín gagnvart vinum mínum og fjölskyldu sem ég hef valdið vonbrigðum, sem og samstarfsfélögum á þinginu og í Viðreisn. Ég ætla mér að snúa blaðinu við svo ég geti staðið almennilega undir því sem ég lofaði kjósendum mínum að vera, öflugur fulltrúi á þingi,“ skrifar Ingvar enn fremur í færslunni.

Ingvar segir að í dag fari hann inn á sjúkrahúsið Vog og fari þar með í leyfi frá þingstörfum.

„Ég ætla að sigrast á þessum djöfli, svo mér geti liðið vel með sjálfan mig og lífið á ný,“ segir hann en Heiða Ingimarsdóttir mun taka sæti Ingvars á Alþingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert