Þórunn Arna Kristjánsdóttir féll fyrir leiklistinni sem barn á leiksýningu í Þjóðleikhúsinu og segist hafa fundið eitthvað sem hún hafði aldrei séð áður „og það kviknaði á einhverju innra með mér“. Hún lærði síðan leiklist og söng, en aldrei datt henni í hug að hún myndi verða leikstjóri líka, eins og hún segir frá í viðtali í Dagmálum Morgunblaðsins.
„Það er svo fallegt að stundum sér annað fólk einhverja ofurkrafta í manni sem maður áttar sig ekki á sjálfur. Mig dreymdi ekki einu sinni um það að gera þetta, ég bara hafði ekki trúað því að ég myndi nokkurn tímann geta orðið leikstjóri og var búin að segja í mörg ár að ég ætlaði aldrei að leikstýra. En Brynhildur Guðjónsdóttir, borgarleikhússtjóri nýfráfarandi, sá eitthvað í mér sem ég vissi ekki að ég ætti til og bauð mér að búa til sýningu sem við erum enn að sýna í dag sem er Ofurhetjumúsin. Fyrstu viðbrögðin voru: Nei, ég kann ekki, ég get ekki. Sem er setning sem ég nota svo í Ofurhetjumúsinni, en hún sagði bara: Já, en ég sé ljósið í þér og ég veit að þú getur þetta, en ég vildi hugsa hugsa málið.
Og svo hugsaði ég um þetta sagði við sjálfa mig að ég væri bara fáviti og að ég væri hrædd. Og stundum þarf maður líka bara að viðurkenna þegar maður er hræddur og þá langar til að hlaupa í burtu, en ég ákvað að mæta þessu. Hausinn á manni vill oft segja nei en líkaminn öskrar já.“