Íbúar í grennd við Sigtún hafa orðið fyrir miklum óþægindum af sprengingum sem staðið hafa yfir vegna stækkunar Grand hótels og byggingar bílakjallara fyrir íbúðabyggð sem á að rísa á Blómavalsreitnum.
„Það voru bara íbúar í Sigtúni sem fengu bréf frá byggingarverktaka og þeim boðið að húsin yrðu skoðuð fyrir sprengingarnar. Ég var hins vegar að passa barnabörnin mín á föstudagsmorgni þegar þessi svakalega sprenging varð og ég hélt að eitthvað svakalegt hefði gerst. Þetta líktist helst gikkskjálfta en var stærra en það. Ég fór inn á allar síður til að athuga hvar hefði orðið jarðskjálfti en fann ekki,“ segir Ólöf Ágústína Stefánsdóttir, íbúi á Laugarnesvegi, við Morgunblaðið.
„Ég bý í húsi sem var byggt 1930 sem við erum að gera upp og við höfum enn ekki séð merki um skemmdir, en erum uggandi þar sem nágranni minn við hliðina er með sprungu í vegg. Byggingarstjóri verksins tilkynnti það kinnroðalaust í fréttum í fyrradag að það stæði til að sprengja í um það bil eitt ár viðbót,“ segir Ólöf.
Hún hefur síðan á mánudag sent inn fyrirspurnir til borgarinnar og í gær hafði hún ekki fengið nein svör, nema þau að þetta mál væri hjá byggingarfulltrúa.
„Ég veit að margir hringdu inn og sendu athugasemdir til Reykjavíkurborgar eftir að sprengingarnar byrjuðu, en það eru allir varðir þar. Ég sendi fyrst inn ábendingu og hringdi svo nokkrum sinnum en fæ ekkert svar. Sú tilfinning skapast að maður sé að trufla þjónustufulltrúana því ég reyndi í heilan dag að fá svör. Vinnueftirlitið kom strax á staðinn og ég vil hrósa þeim fyrir þeirra viðbrögð. En þegar kvartanir berast til byggingarfulltrúa heyrist ekki neitt og hvað ætlar hann að taka sér langan tíma til gefa okkur svör?“ spyr Ólöf.
Henni finnst það vera á skjön við stefnu Reykjavíkurborgar að setja heilt hverfi í gíslingu í heilt ár fyrir bílakjallara.
„Við fáum þau skilaboð að við eigum ekki að vera með svona mikið af bílum og við eigum bara að nota borgarlínu eða leigubíl. Svo er allt þetta vesen út af bílakjallara.“
Hún spyr sig hvort ekki sé hægt að vera með minna sprengimagn í einu til þess að húsin í nágrenninu séu ekki í hættu.
Magnús Hjálmarsson, sprengistjóri hjá Borgarvirki, segist skilja íbúana vel og gera sitt besta til að stytta sprengitímann. Hann sé með mæli sem sýni að sprengt sé undir leyfilegum mörkum sem eru 15 millimetrar á sekúndu.
„Vinnueftirlitið kom hér í gær og við fengum allt athugasemdalaust frá þeim. Við vinnum þetta innan marka laganna og samkvæmt þeim má byrja að sprengja alla virka daga, en ekki um helgar og á rauðum dögum.“
Hann segir að þeir megi sprengja frá klukkan 8 á morgnana til 6 á kvöldin, en vegna nálægðar við íbúðabyggðina sprengi þeir milli 9 og 4.
„Það er sprengt á klukkutímafresti, klukkan 9.55 og 10.55 og svo framvegis, þannig að þeir sem eru með viðkvæma starfsemi eins og sálfræðiþjónustu sem er í nágrenninu geti stillt sig af samkvæmt því.“
Jörðin skelfur
Íbúi segist fá á tilfinninguna að hann sé að trufla þjónustufulltrúa Reykjavíkurborgar því að hann reyndi í heilan dag að fá svör, en hefur ekki fengið þau eftir þriggja daga tilraunir.
Finnst það vera á skjön við stefnu Reykjavíkurborgar að setja heilt hverfi í gíslingu, í heilt ár, fyrir bílakjallara.
Vinnueftirlitið hefur mælt sprengingarnar og gerir ekki athugasemdir við hvernig verkið er unnið.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.