Reykjavík samþykkir sölu á Perlunni

Kaupsamningur um sölu á Perlunni hefur verið samþykktur í Borgarráði.
Kaupsamningur um sölu á Perlunni hefur verið samþykktur í Borgarráði. Ljósmynd/Aðsend

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi í dag kaupsamning vegna sölu á Perlunni í Öskjuhlíð. 

Kaupverðið er 3,5 milljarðar króna en kaupandi er núverandi rekstraraðili Perlunnar, Perlan þróunarfélag ehf. 

Söluferli Perlunnar hófst í júní 2024 og var þá lagt upp með það að fá 3,5 milljarða fyrir bygginguna, því er ljóst að uppsett verð fékkst fyrir Perluna. Tveir tankar Perlunnar af sex fylgja með í kaupunum.

Borgin með forkaupsrétt

Í fundargerð er vísað til þess að Perlan sé eitt af kennileitum Reykjavíkurborgar og því verði ákveðnum kvöðum þinglýst á eignina.

Í fyrsta lagi mun Reykjavíkurborg hafa forkaupsrétt að Perlunni ásamt tönkunum tveimur. Í öðru lagi skal Perlan nýtt undir afþreyingartengda starfsemi s.s. söfn, sýningar, veitingaþjónustu eða annað sem gerir staðinn að aðlaðandi áfangastað fyrir almenning í Reykjavík.

Í þriðja lagi skulu börn í grunnskólum Reykjavíkurborgar geta komið í skipulagðar grunnskólaheimsóknir í náttúrusöfn Perlunnar tvisvar sinnum á skólagöngunni frá 1. til 10. bekkjar endurgjaldslaust. 

Sátu hjá við atkvæðagreiðslu

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðslu um það hvort samþykkja ætti kaupsamninginn.

Þeir lögðu fram bókun þess efnis að þeir studdu það að Perlan hafi verið sett í söluferli en gerðu þó fyrirvara við greiðslufyrirkomulag og óljós vilyrði um byggingarheimildir. 

Aðrir borgarráðsfulltrúar greiddu atkvæði með því að kaupsamningurinn yrði samþykktur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert