Reglur um leigu á einu elsta timburhúsi Íslands eru til skoðunar hjá Húnabyggð.
Á sveitarstjórnarfundi Húnabyggðar fyrr í mánuðinum var ákveðið að atvinnu- og menningarnefnd sveitarfélagsins færi yfir drög að reglum um leigu á Hillebrandtshúsi á Blönduósi. Bærinn keypti húsið, sem talið hefur verið elsta timburhús á Íslandi, árið 1992.
Engin formleg starfsemi hefur verið í húsinu síðan í sumarlok 2015. Þá lagði Hafíssetrið, sem hafði haft aðsetur í húsinu frá 2006, niður starfsemi fyrir fullt og allt.
Menningar- og tómstundafulltrúi Húnabyggðar, Kristín I. Lárusdóttir, segir engar formlegar leiguumsóknir hafa borist sveitarfélaginu nýverið. Hún segir einstaka aðila, til dæmis listamenn og handverksfólk, hafa fengið óformleg afnot af húsinu, en að með skoðun reglugerðar myndi leigan fara fram með formlegum hætti. Sveitarfélagið nýti húsnæðið einnig í kringum aðventuhátíð bæjarins.
Hillebrandtshús hefur lengi verið haft að þrætuepli sagnfræðinga og deilt hefur verið um hvort það sé raunverulega elsta timburhús Íslands líkt og margir bæjarbúar halda fram. Rökin fyrir þeirri staðhæfingu eru þau að húsið hafi verið byggt á Skagaströnd árið 1733 og flutt til Blönduóss árið 1877.
Bæjarbúar hafa einnig notið góðs af húsinu. Í sumar verður húsnæðið til að mynda notað á vegum Rabarbarahátíðar á Blönduósi, en hátíðin þiggur jafnframt 500.000 króna styrk frá sveitarfélaginu.