Stefnt að 60 milljarða uppbyggingu

Hér má sjá afstöðumynd sem sýnir byggingar Hrafnistu í Hafnarfirði.
Hér má sjá afstöðumynd sem sýnir byggingar Hrafnistu í Hafnarfirði.

Sjómannadagsráð, Hrafnista og DAS íbúðir stefna á 50–60 milljarða uppbyggingu hjúkrunarheimila og þjónustuíbúða til að mæta ört vaxandi hópi eldri borgara á næstu 15 árum.

Fram kemur í tilkynningu að uppbyggingin verði á þremur kjarnasvæðum á höfuðborgarsvæðinu, Laugarási, Hraunvangi og Skógarbæ.     

Er markmiðið að tryggja fjölbreyttar búsetu og þjónustuleiðir fyrir stækkandi hóp eldra fólks og bregðast við brýnni þörf fyrir um 100 ný hjúkrunarrými á ári fram til ársins 2040. 

„Áhersla er lögð á að heilsuefling og virknimöguleikar fyrir eldri borgara séu í forgrunni. Rannsóknir sýna að hreyfing og félagsleg þátttaka stuðla að bættri heilsu, vellíðan og sjálfstæði á efri árum. Með réttri nálgun og skipulagi má tryggja að stækkandi hópur eldra fólks fái þjónustu við hæfi og búsetu sem mætir ólíkum þörfum,“ segir í tilkynningunni. 

Afstöðumynd sem sýnir húsnæði Hrafnistu í Laugarási.
Afstöðumynd sem sýnir húsnæði Hrafnistu í Laugarási.

Þá er farið yfir helstu tölur sem kalli á aðgerðir:

  • Hlutfall 67 ára og eldri hækkar úr 12,4 % (2020) í 19,2 % (2040) og nálgast 21 % (2050) (Mannfjöldaspá Hagstofu Íslands). 
  • Meðalævi lengist – spáð  88,7 ár fyrir konur og 84,4 ár fyrir karla árið 2069. 
  • 22 % starfandi einstaklinga voru 55–74 ára árið 2023, samanborið við 17 % árið 2003. 

„Þessi þróun kallar á nýjar lausnir í húsnæði og þjónustu – sérstaklega fyrir þá sem kjósa sjálfstæða búsetu en þurfa aðgengi að þjónustu og félagslegum stuðningi,“ segir í tilkynningunni. 

Inntak þróunaráætlunarinnar 

  • Uppbygging hjúkrunarheimila: Auka fjölda rýma um ca.300 til 2040. 
  • Þjónustu og leiguíbúðir: Fjölga íbúðum um tæplega 400 og bæta við úrræðum fyrir eldra fólk sem vill búa sjálfstætt en nálægt þjónustu. 
  • Heilsuefling og virkni: Sérstök áhersla á hreyfingu, félagslegt líf og forvarnir sem lengja sjálfstæði og bæta lífsgæði. 
  • Uppbyggingin verður fjármögnuð í áföngum á næstu 15 árum og felur í sér samstarf við ríki, sveitarfélög og fjármálastofnanir. 

Hægt er að fræðast nánar um þróunaráætlun Sjómannadagsráð hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert