Vegagerðin undirbýr tvöföldun Suðurlandsvegar, frá Bæjarhálsi í Árbæjarhverfi að Hólmsá. Lagnir Veitna ohf., dótturfyrirtækis Orkuveitunnar, munu lenda í uppnámi við þessar framkvæmdir og við því þarf að bregðast.
Þetta kemur fram í kynningu á áformaðri endurnýjun Veitna á svokallaðri Suðuræð, frá Elliðaám að Rauðavatni, sem unnin var fyrir borgarfulltrúa Reykjavíkur.
Þessi kafli er eini hluti Suðurlandsvegar sem eftir er að tvöfalda. Framkvæmdir við veginn hafa ekki enn verið tímasettar, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.
Fram kemur í kynningunni að verkefnið er hluti af kerfisáætlun Veitna sem ráðast þarf í til að auka og tryggja afhendingu á heitu vatni til viðskiptavina.
Notkun á heitu vatni hefur aukist mikið, ásamt því að fyrirsjáanleg er að hún aukist enn frekar. Því þarf að ráðast í þessar framkvæmdir ef ekki á að koma til skerðingar á afhendingu á heitu vatni. Ljóst er að þetta verða kostnaðarsamar framkvæmdir.
Veitur þurfa því að færa legu Suðuræðar 1 austur fyrir Breiðholtsbraut, auk þess að leggja Suðuræð 2 samhliða til að auka flutningsgetu og rekstraröryggi.
Hönnun gerir ráð fyrir að lögnin þveri Suðurlandsveg austan megin við vegamót Breiðholtsbrautar og Suðurlandsvegar. Lagt er til að leggja tvö ídráttarrör, sem Suðuræð 1 og 2 myndu nýta, til að þvera veginn.
Í seinni áfanga mun Suðuræð 1 þvera Elliðaár þar sem Breiðholtsbrautin liggur nú en þar verður lögnin lögð í brúnni yfir ána á sama hátt og var gert með Suðuræð 2.
Fram kemur í kynningu Veitna að gerður yrði samningur um mótvægisaðgerðir.
Mögulegar mótvægisaðgerðir gætu verið: Áningarstaður tengdur stígagerð, styrkur til skógræktar, kaup á trjám til gróðursetningar eða eingreiðsla.
„Samningur um mótvægisaðgerðir er þekkt leið til að koma til móts við það rask sem verður af framkvæmdum,“ segja Veitur.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Framsóknarflokksins í umhverfis- og skipulagsráði bókuðu að breytingarnar helguðust af nauðsynlegri tvöföldun hitaveitulagnar og fyrirhugaðri uppbyggingu Vegagerðarinnar á mislægum gatnamótum á mörkum Breiðholtsbrautar og Suðurlandsbrautar.
Framkvæmdirnar muni valda raski á vinsælu útivistarsvæði. Mikilvægt sé að vandað verði til verka svo að óhjákvæmilegt rof í skóginum við Rauðavatn grói sem fyrst.
Áheyrnarfulltrúi Viðreisnar tók í sama streng. „Svæðið við Rauðavatn er paradís í borgarlandinu og mikilvægt að gæta vel að þegar farið er í framkvæmdir á slíkum svæðum,“ bókaði hann.
Á heimasíðu Veitna er einnig fjallað um verkefnið. Þar kemur fram að um hina nýju lögn muni renna heita vatnið sem kemur frá jarðvarmavirkjunum í gegnum tanka á Reynisvatnsheiði. Hún tvöfaldi það magn sem hægt er að flytja til höfuðborgarsvæðisins frá jarðvarmavirkjunum.
Suðuræð 2 auki rekstraröryggi hitaveitunnar og í framtíðinni verður sem dæmi hægt að sinna viðhaldi á Suðuræð 1 án þess að stöðva afhendingu heita vatnsins tímabundið hjá þúsundum íbúa.
Morgunblaðið fékk þær upplýsingar hjá Vegagerðinni að nú væri unnið að hönnun á breikkun Suðurlandsvegar (1) frá Bæjarhálsi að Hólmsá en umhverfismati lauk árið 2022. Þetta er um fimm kílómetra langur kafli og lagður verður 2 + 2 vegur með þrennum gatnamótum.
Verkefnið var hluti af samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins en var fellt út úr honum við endurskoðun sáttmálans í lok síðasta árs. Verkefnið er ófjármagnað og hefur ekki verið tímasett. Gera þurfi ráð fyrir því í nýrri samgönguáætlun sem verði lögð fyrir Alþingi næsta haust, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.
Áformað er að leggja veginn í fimm áföngum. Í fyrstu tveimur áföngunum verða vegamótin við Breiðholtsbraut, Norðlingavað og Hafravatnsveg planvegamót. Í áföngum 3, 4 og 5 er áætlað að vegamótin verði gerð mislæg. Taka þarf frá rými við gatnamótin fyrir útfærslur á þeim.
Vegna nálægðar við Rauðavatn kann sú vinna að verða flókin.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.