Heilbrigðisráðuneytið, félags- og húsnæðismálaráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið hafa sameinast um að veita Hjálparsíma Rauða krossins 1717 alls 25 milljónir króna. Samkomulag þess efnis var undirritað í dag og felur styrkurinn í sér að tryggja áframhaldandi starfsemi símans og netspjalls allan sólarhringinn.
Forganga málsins kom frá Ölmu Möller heilbrigðisráðherra sem benti á að nauðsynlegt væri að bregðast við fjárhagserfiðleikum Hjálparsímans til að forðast skerðingu á þjónustunni.
„Við teljum þessa starfsemi afskaplega mikilvæga og viljum fyrir alla muni halda henni áfram. Ég þekki tölurnar, þ.e. fjölda símtala og við vitum að stundum snúa þau að andlegri vanlíðan, kvíða, sjálfsvígshugsunum og jafnvel ofbeldi. Sumum símtölunum lýkur með tilkynningu til barnaverndar. Þannig þetta er ótrúlega mikilvægt, eins og ráðherra barnamála nefndi að börn hafi númer sem þau geti hringt í allan sólarhringinn eða notað spjallið,” sagði Alma við blaðamann að undirritun lokinni.
Guðmundur Ingi tók undir með Ölmu. „Það er svo mikilvægt. Til dæmis notar ungt fólk spjall í gegnum samfélagsmiðla. Það er þeim tamara heldur en nokkurn tímann síminn. Þannig að þetta er bara frábært,” sagði Guðmundur Ingi.
Spurður hvort þörf væri á vitundarvakningu Hjálparsímans til barna og ungmenna sagði hann: „Til þess að þetta verði öryggisatriði þurfum við að vita af þessu.”
Heilbrigðisráðuneytið leggur fram 10 milljónir króna, félags- og húsnæðismálaráðuneyið leggur jafnframt til 10 milljónir og mennta- og barnamálaráðuneytið leggur til fimm milljónir. Ráðherrarnir leggja sameiginlega áherslu á mikilvægi þjónustunnar og benda á að hún nái til fólks á öllum aldri sem glíma við erfiðar aðstæður og hafi þörf fyrir aðgengilegum og öruggum stuðningi.
Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, segir ákvörðun ráðherranna stórkostlegar fréttir. „Með þessum stuðningi ráðuneytanna þriggja getur Rauði krossinn haldið Hjálparsímanum 1717 áfram opnum allan sólarhringinn svo öll sem á þurfa að halda geti haft samband og rætt sín hjartans mál hvenær sem þeim hentar. Reynslan sýnir okkur að sálfélagslegur stuðningur, líkt og starfsfólk og sjálfboðaliðar 1717 veita, getur skipt sköpum í lífi fólks og jafnvel bjargað lífi þess. Slík þjónusta verður einfaldlega að vera til staðar í okkar samfélagi.“
Samkvæmt yfirlýsingu frá Rauða krossinum gerir stuðningurinn þeim kleift að viðhalda órofinni þjónustu við einstaklinga sem leita eftir félagslegum stuðningi, oft í mikilli vanlíðan. Í samtölum við 1717 fá þau sem leita hjálpar sálrænan stuðning og leiðbeiningar um úrræði, bæði í gegnum síma eða netspjall. Þjónustan er öllum opin og fullum trúnaði heitið.
Tæplega 20 þúsund samtöl bárust Hjálparsímanum á árinu 2024 og eru þau orðin um 8.500 það sem af er ári 2025. Samtöl sem snúa að sjálfsvígshugsunum voru 1.036 í fyrra, þar af leiddu 154 til þess að kallað var á sjúkrabíl. Það sem af er þessu ári hafa 648 slík samtöl borist, auk 529 samtala sem varða ofbeldi. Í 83 tilvikum hefur þurft að kalla til neyðarþjónustu.
Hjálparsíminn er rekinn af tveimur starfsmönnum í fullu starfi og átta í hlutastarfi. Auk þess sinna um 70 sérþjálfaðir sjálfboðaliðar vöktum, oftast tvisvar í mánuði. Rauði krossinn telur nauðsynlegt að fjölga sjálfboðaliðum til að mæta vaxandi álagi.