Lea D. Pokorny, doktorsnemi í sagnfræði, heldur fyrirlestur um hárham og holdrosa í skinnhandritum laugardaginn 24. maí kl. 11. Fyrirlesturinn fer fram í Eddu og er haldinn í tengslum við handritasýninguna Heimur í orðum.
Í viðburðarlýsingu segir: „Fyrirkomulag skinnblaða í kverum er mikilvægt skref í handritagerð. Tvær viðteknar hefðir eru aðgreindar af fræðimönnum sem eiga við um Evrópu á miðöldum. Annars vegar „insular“-hefðin, þ.e.a.s. hefðin frá Bretlandseyjum þar sem blöðunum er raðað þannig að hárhamur snýr að holdrosa í opnu kveri og hins vegar meginlandshefðin þar sem hárhamur snýr að hárham og holdrosi að holdrosa, einnig kölluð „regla Gregorys“.
Íslensk bókaframleiðsla á miðöldum hefur hingað til verið sögð hafa fylgt síðarnefndu hefðinni, þó ekki alltaf nákvæmlega. Í þessu erindi verður farið yfir kverabyggingu í íslenskum handritum frá 14. öld til að sýna fram á hvaða starfsháttum íslenskir bókagerðarmenn fylgdu.“