„Við erum bara í góðum málum“

Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, vill meina að staðan …
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, vill meina að staðan sé góð þegar kemur að meðferðarúrræðum. mbl.is/Karítas

Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, segir að við séum í „góðum málum“ þegar kemur að stöðu meðferðarúrræða fyrir börn og unglinga. Kortlagning standi þó yfir.

„Í haust kemur miklu betri heildarsvipur á þetta hjá okkur. Við erum að kortleggja þetta allt saman,“ sagði ráðherra í samtali við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund á þriðjudag.

„Stuðlar verða vonandi tilbúnir næstu áramót, síðan erum við með Vog. Við erum með ágætis stöðu í dag, við erum ekki að nota til dæmis Flatahraun eða neitt, við erum bara í góðum málum,“ sagði ráðherra jafnframt.

Á skjön við það sem fagfólkið segir

Er þetta algjörlega á skjön við það sem starfsfólk barnaverndarþjónustunnar og umboðsmaður barna hefur sagt, en ítrekað hefur verið lýst yfir neyðarástandi í málefnum barna með með fjölþættan vanda síðustu mánuði.

Umboðsmaður hefur kallað eftir tafarlausum úrbótum í málaflokknum og bæði framkvæmdastjóri barnaverndar í Reykjavík og skrifstofustjóri barnaverndar í Kópavogi hafa sagt félagsráðgjafa að þrotum komna við að reyna að útvega börnum úrræði sem eru ekki til. Ástandið hafi aldrei verið verra.

Þegar Guðmundur var spurður hvort og þá hvernig bregðast ætti við þeirri stöðu sem barnaverndarþjónustan er í, að hafa engin úrræði fyrir börn vanda. Sagði hann alltaf vera eitthvað plan.

„Stuðlar eru með tvö öryggisrými í dag, Stuðlar eru líka á fleygiferð að koma öllu í gagnið eftir eldsvoðann. Við verðum með alltaf með eitthvað plan sem ef á þarf að halda. Það er alveg á hreinu,“ sagði Guðmundur.

„Á Vogi er mjög góð aðstaða, ég er búin að skoða hana. Hún er virkilega flott.“ 

Ekki hægt að ljúka framkvæmdum strax

Ráðherra vísaði til tveggja úrræða sem eru í notkun í dag og svo lögreglustöðvarinnar í Flatahrauni í Hafnarfirði, þar sem börn voru neyðarvistuð í fangaklefum við óboðlegar aðstæður um tíma, eftir að neyðarvistun Stuðla gjöreyðilagðist í eldsvoða í október síðastliðnum. Notkun Flatahrauns hefur þó verið hætt, eftir að tókst að flýta endurbyggingu tveggja herbergja á neyðarvistun Stuðla.

Framkvæmdir standa yfir á Stuðlum þar sem verið er að endurbyggja álmu fyrir neyðarvistun í heild sinni og gera endurbætur á húsnæðinu svo það henti betur fyrir sakhæf börn og börn sem eru hættuleg sjálfum sér og öðrum, en til stendur að nýta Stuðla alfarið fyrir þann hóp barna. 

Samkvæmt upplýsingum frá Barna- og fjölskyldustofu verður þó ekki hægt að ljúka framkvæmdum á Stuðlum fyrr en eftir að meðferðarheimilið Lækjarbakki verður opnað á ný í Gunnarsholti, en það verður í fyrsta lagi í lok september að október. Eins og mbl.is greindi frá fyrr í vikunni hefur asbest fundist í húsnæðinu.

Lækjarbakka var lokað vegna myglu í apríl á síðasta ári og hefur ekki verið hægt að bjóða upp á langtímameðferð fyrir drengi síðan þá.

Einhverjir drengir hafa verið vistaðir til lengri tíma á Stuðlum, en samkvæmt bæði starfsfólki og foreldrum fer lítið sem ekkert meðferðarstarf þar fram eins og staðan er í dag.

Sýndaropnun fyrir kosningar

Þá talar Guðmundur um meðferðarheimilið Blönduhlíð á Vogi sem opnað var í febrúar á þessu ári. Til stóð að meðferðarheimilið yrði opnað í Mosfellsbæ í desember síðastliðnum og bauð Ásmundur Einar Daðason, þáverandi mennta- og barnamálaráðherra, til sýndaropnunar í lok nóvember, fjórum dögum fyrir kosningar. Húsnæðið stóðst hins vegar ekki brunaúttekt og því fékkst ekki starfsleyfi.

Kemur til greina að framlengja leigusamning

Í Blönduhlíð á Vogi hafa strok verið vandamál, en Guðmundur Fylkisson lögreglumaður, sem sér um leit að týndum börnum, sagði í samtali við mbl.is í apríl að strok væru töluvert meira vandamál þar heldur en á Stuðlum. Frá því heimilið var opnað í febrúar og þangað til 17. apríl voru skráð 22 strok af Blönduhlíð.

Þá gildir leigusamningurinn á Vogi aðeins til áramóta, en ráðherra segir að til greina komi að framlengja hann.

„Við munum skoða alla möguleika, við stoppum aldrei, það er alveg á hreinu. Þegar börn eru annars vegar þá verðum við að skoða allt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert