Annar maður er látinn eftir eldsvoða í Hjarðarhaga í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Lögregla sendi einnig frá sér tilkynningu í gær um andlát annars manns. Þriðji maðurinn sem var innandyra í eldsvoðanum er ekki í lífshættu.
Eiríkur Valberg, fulltrúi í rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að rannsókn á eldsupptökum sé enn í fullum gangi.
„Við erum að vinna með tæknideildinni til að fá betri mynd á það sem gerðist,“ segir Eiríkur.
Spurður segir Eiríkur þriðja manninn ekki í lífshættu.
„Hann er ekki í lífshættu en hann er nokkuð slasaður,“ segir Eiríkur.
Mennirnir sem lentu í eldsvoðanum eru allir erlendir en þjóðerni þeirra liggur ekki fyrir á þessari stundu.