Bandaríkjamaður og Tékki létust á Hjarðarhaga

Frá vettvangi á Hjarðarhaga.
Frá vettvangi á Hjarðarhaga. mbl.is/Eyþór

Karlmennirnir tveir sem létust eftir mikinn eldsvoða á Hjarðarhaga í gær eru Bandaríkjamaður á sextugsaldri annars vegar og Tékki á fertugsaldri hins vegar. Lögreglan segir miður að sér hafi láðist að kalla á áfallahjálp á vettvang.

Ævar Pálmi Ævarsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir þetta við mbl.is. Annar þeirra lést í gær og hinn lést af sárum sínum í nótt.

Fjórir menn hafa búið í kjallaraíbúðinni við Hjarðarhaga 48 þar sem eldurinn kom upp í gærmorgun. Þrír þeirra voru í íbúðinni og tveir þeirra eru látnir, sá þriðji er slasaður og liggur á spítala en er ekki í lífshættu.

Lögreglan hefur nú til rannsóknar hvort íkveikja hafi valdið eldinum. Ævar getur heldur ekki tjáð sig um hvort eitthvað sérstakt bendi til þess.

Heyrðu mikinn hvell

Sjónarvottar lýsa því að hafa heyrt mikinn hvell. „Meðal markmiða í brunarannsókninni er að átta sig á því hvers vegna þetta brennur svona með þessum hætti, þessari mögulegu sprengingu og hvernig eldurinn þróast,“ segir Ævar.

Hann kveðst heldur ekki getað tjáð sig um hvort bensínbrúsar hafi verið inni í í­búðinni en Vísir telur sig hafa heimildir fyrir því.

Lögreglan hyggst ekki fara fram á gæsluvarðhald yfir nokkrum að svo stöddu.

Ævar segir ekkert benda til þess að fíkniefnaframleiðsla hafi verið iðkuð inni í íbúðinni.

Lögreglan hefur sætt gagnrýni meðal íbúa fyrir að fá Rauða krossinn ekki á vettvang til að veita áfallahjálp. „Því miður láðist það að kalla eftir Rauða krossinum á vettvang strax, sem okkur þykir miður,“ segir Ævar, sem bendir þó á símann 1717 fyrir þá sem þurfa á áfallahjálp að halda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert