Alvarlegum símtölum til Hjálparsíma Rauða krossins hefur fjölgað og er fólk oft í mikilli örvæntingu þegar það nýtir sér þjónustuna, jafnvel í sjálfsvígshugleiðingum. Hjálparsíminn tekur við um 20 þúsund samtölum árlega, bæði í gegnum síma og netspjall, og eru samtölin nú oft lengri en áður.
Þetta segir Elfa Dögg S. Leifsdóttir, sálfræðingur Rauða krossins og teymistjóri geðheilbrigðis og sálfélagslegs stuðnings.
Hjálparsíma Rauða krossins 1717 var í gær veittur 25 milljóna króna sameignlegur styrkur frá heilbrigðisráðuneytinu, félags- og húsnæðismálaráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytinu, sem kemur í veg fyrir að skerða þurfi þjónustuna.
„Þetta þýðir það að við getum haldið áfram á okkar braut og haldið sólarhringsþjónustu opinni fyrir alla og öll sem að þurfa á að halda. Þannig að þetta er gríðarlega mikilvægt,” segir Elfa Dögg, aðspurð um þýðingu styrksins fyrir Hjálparsímann. Blaðamaður ræddi við hana að lokinni undirritun styrkveitingarinnar í gær
Elfa Dögg segir að hringingarnar hafi aukist jafnt og þétt.
„Við erum að sjá núna í kringum 20 þúsund samtöl, þ.e. bæði símtöl og spjall árlega. Það sem hefur reyndar breyst núna er að það er aðeins aukning í símtölum en einnig er alvarlegum símtölum og samtölum að fjölga. Þá er ég að tala fólk sem er í mikilli örvæntingu og jafnvel að íhuga sjálfsvíg. Einnig hefur orðið aukning á samtölum þar sem um er að ræða ofbeldismál. Þannig að það er svona meiri þyngd í símtölunum og þau taka líka lengri tíma. Þannig við erum svona að sjá smá breytingu í þessa átt,” segir hún jafnframt.
Ákveðna hæfni þarf til að sinna símsvörun hjá Hjálparsímanum enda eru símtölin sem honum berast af öllu tagi, að sögn Elfu Daggar.
„Sjálfboðaliðar sinna að hluta til símsvörun hjá okkur. Við erum einmitt núna að leita eftir sjálfboðaliðum. Það er ákveðin hæfni sem þarf að hafa auðvitað í það. Við erum með aldurstakmark sem er 23 ára. Það er hægt að sækja um í gegnum heimasíðuna okkar, redcross.is eða raudikrossinn.is, að gerast sjálfboðaliði og þá verður haft samband við viðkomandi,” segir hún að lokum.