Hæstiréttur hefur ákveðið að taka upp Bátavogsmálið svokallaða til efnislegrar málsmeðferðar.
Málið snýr að sakfellingu Dagbjartar Guðrúnar Rúnarsdóttur, sem dæmd var í 16 ára fangelsi í Landsrétti fyrir að bana sambýlismanni sínum eftir tveggja daga barsmíðar en að köfnun hafi verið banamein. Lögmaður hennar sendi inn málskotsbeiðni til Hæstaréttar sem byggði á þeirri forsendu að dómurinn væri bersýnilega rangur.
Snúa rök lögmanns hennar að því að í dómi Landsréttar hafi útvíkkuð réttarkrufning ráðið för við að ákvarða um það hvernig dauða mannsins bar að garði. Hins vegar hafi ekki verið tekið mark á dómkvöddum matsmönnum. Á þeirri forsendu hafi dómur yfir Dagbjörtu verið þyngdur um 6 ár á milli dómstiga en hún hlaut 10 ára dóm í héraði.
Þannig hafi hún í héraðsdómi verið sakfelld fyrir stórfellda líkamsárás sem leiddi til dauða en í Landsrétti hafi Dagbjört verið sakfelld fyrir manndráp.
Hæstiréttur segir í niðurstöðu sinni um að taka málið upp: „Að virtum gögnum hafi það verulega þýðingu almenna þýðingu“ að skýra hvaða refsiákvæði hafi verið undir þegar dómur var felldur.