Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir það hafa komið á óvart hve eldurinn á Hjarðarhaga í gær var mikill er slökkvilið bar að garði.
Hann segir í samtali við mbl.is ekki ljóst af hverju eldurinn var svona mikill en telur að rannsókn lögreglu muni leiða það í ljós.
Þrír fullorðnir karlmenn voru fluttir á bráðamóttöku í kjölfar brunans, einn þeirra er nú látinn og annar er alvarlega slasaður.
Jón Viðar segir það hafa gengið mjög vel fyrir sig að slökkva eldinn eftir að á staðinn var komið. Menn hafi gengið beint og hnitmiðað til verks.
Jón Viðar segir að eftir að tilkynning barst um brunann hafi slökkvilið verið ræst út frá öllum stöðvum auk þess sem fjöldi sjúkrabíla voru sendir á vettvang.
„Við vorum þó á sama tíma að glíma við önnur verkefni á höfuðborgarsvæðinu sem voru mjög aðkallandi.“
Ekki var því hægt að senda allt tiltækt slökkvilið á vettvang á Hjarðarhaga sökum annarra aðkallandi verkefna. Það vekur upp spurningar hvort að viðbragð væri nægilegt ef mörg stór verkefni myndu blasa við á sama tíma.
„Við erum með vel þjálfað fólk og góðan búnað. Ef mjög stór verkefni kæmu þá gæti alltaf tímabundið orðið skortur á viðbragði. Ef það gerist þá hringjum við út þá slökkviliðsmenn sem eru í fríi, við búum við þann lúxus að mæting þeirra sem eru í fríi er mjög góð. Þegar bruninn varð í Kringlunni í fyrra þá fengum við áttatíu manns í úthringingu,“ segir Jón Viðar aðspurður hvort viðbragð gæti í vissum tilvikum ekki verið nægilegt.
Jón Viðar segir það geta verið mjög erfitt fyrir slökkviliðsmenn að fara í útköll þar sem ljóst er að andlát hafi orðið. Ákveðnir verkferlar séu þó til staðar þegar svo til háttar.
„Fyrsta skrefið er félagastuðningur þar sem við ræðum saman eftir svona atburði, menn spyrja sig oft hvort þeir hefðu getað gert eitthvað betur og svo framvegis. Við höfum haft þetta svona í áratugi og þetta hefur virkað vel. Ef þetta losar ekki um hluti sem að setjast á sálina að þá hafa slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn heimild til þess að leita sér aðstoðar hjá sálfræðingum á okkar snærum,“ segir Jón Viðar.
Jón Viðar segir það heppilegt að ekki hafi margir verið heima í blokkinni þegar eldurinn greip um sig. Hann segir þó að þar sem eldurinn hafi verið á svo þéttbýlu svæði hafi nokkuð mikill fjöldi vegfarenda borið á vettvang og orðið vitni að aðgerðum slökkviliðs.