Ástand mannsins sem var stunginn í kviðarhol með stórum eldhúshnífi í Úlfarsárdal í fyrradag er stöðugt og gert er ráð fyrir að tekin verði af honum skýrsla í dag.
Þetta segir Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Lögreglan hefur lagt hald á vopnið en karlmaður um fertugt, sem er grunaður um að hafa stungið mann á fimmtugsaldri, var í gær úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald. Var það gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu lögreglunnar.
„Rannsókn málsins heldur áfram. Gagnaöflun stendur yfir og það er enn verið að ræða við vitni sem voru á staðnum og þá erum við með talsvert af myndefni. Það er komin ágæt mynd á það sem gerðist á þessum tíma og svo er verið að kanna hver aðdragandinn að árásinni var,“ segir Ævar Pálmi.
Íbúar við Skyggnisbraut í Úlfarsárdal eru óttaslegnir yfir því ástandi sem skapast hefur í hverfinu. Íbúi í hverfinu sem ekki vill láta nafns síns getið segir árásina sem hann varð vitni að ekki vera einsdæmi og að lögregla hafi ítrekað verið kölluð til að hafa afskipti af sömu mönnum og voru viðriðnir árásina í fyrradag.
Íbúinn sagði við mbl.is að um hóp erlendra manna hafi verið að ræða og haldi þeir hverfinu í heljargreipum með ofbeldi sem og áreitni í garð nágranna.
Árásarmaðurinn réðst að tveimur mönnum úti á miðri götu með stórum eldhúshnífi og varð fjöldi fólks vitni að árásinni, þar á meðal börn sem voru á leið heim úr skóla.