„Maður missir ekki mannréttindi sín þó maður sé í afplánun,“ segir Sigríður Ella Jónsdóttir. Sigríður og Tinna Eyberg Örlygsdóttir eru verkefnastjórar Aðstoðar eftir afplánun hjá Rauða Krossinum. Þær kynntu verkefnið á afmælisráðstefnu Afstöðu, félags fanga um bætt fangelsismál, í gær.
Segja þær verkefnið byggja á virðingu, von, lýðheilsu, mannréttindum og félagslegum réttindum og aðalmarkmið þess sé að draga úr endurkomu í fangelsin.
Verkefnið snúist um að veita öryggi og stuðning og sé mjög einstaklingsmiðað.
Aðstoð eftir afplánun er aðgengileg öllum sem hafa afplánað dóm og er veitt að ósk og upplýstu samþykki viðkomandi, sem getur hætt hvenær sem er. Þá er ekki gerð krafa um edrúmennsku heldur einungis góð samskipti.
Verkefnið hófst í lok árs 2018 með svokölluðum einstaklingsstuðningi. Einn sjálfboðaliði styður þá við bakið á einum þátttakanda og hefst stuðningurinn um tveimur til þremur mánuðum áður en þátttakandinn lýkur afplánun.
Stuðningurinn er í boði fyrir viðkomandi í tólf til fjórtán mánuði og hittir hann sjálfboðaliðann einu sinni í viku í um það bil klukkutíma í senn.
Sjálfboðaliðar fara á námskeið áður en þeir geta hafið störf, eru bundnir fullum trúnaði og skuldbinda sig í eitt ár.
Konur hafa sótt töluvert minna um í einstaklingsverkefnið en karlar og var því farið af stað með konukvöld á Hólmsheiði í haust.
„Alla þriðjudaga fer mjög öflugur hópur sjálfboðaliða inn á Hólmsheiði og eru í þrjá klukkutíma í senn að bjóða upp á alls konar iðju. Það hefur verið bakað, dansað, klippingar og dekur og ýmislegt,“ segir Tinna.
Þetta segja þær mikla framför vegna þess að þarna sé hægt að mæta konum í gæsluvarðhaldi og einstaklingum sem eru ekki með kennitölu á Íslandi.
„Þannig að þetta er miklu breiðari hópur og við náum til miklu fleiri með þessu verkefni.“
Að sögn Tinnu hefur mikil aukning átt sér stað á einstaklingum innan fangelsanna sem eru ekki með kennitölu á Íslandi og á jafnvel að vísa á brott af landinu.
„Þannig að við höfum líka breytt því, að þeir sem eiga allavega sex mánuði eftir í afplánun á Íslandi, þeir geta sótt um í verkefnið og fengið sjálfboðaliða,“ segir Tinna.
Verið sé einnig að taka inn mun fleiri sjálfboðaliða sem tala ekki íslensku, „af því að við erum með mun fleiri tungumál núna í fangelsum, eðlilega. Þannig að við erum alltaf að endurskoða og breyta og bæta“.
Eftir afplánun fylgja nokkrar áskoranir. Má þar helst nefna grunnstoðir en erfitt er að byggja upp líf sitt á ný ef grunnstoðir eins og húsnæði, atvinna, félagsleg tengsl og öryggi eru ekki til staðar.
Skortur á eftirfylgd eftir að afplánun lýkur er önnur áskorun en einstaklingar missa gjarnan tengingu sína við kerfið sem gerir þeim enn erfiðara að aðlagast samfélaginu á ný.
Vegna aukningar á einstaklingum í fangelsiskerfinu sem eru ekki með kennitölu er vonin að ná betur til breiðari hóps, eins og einstaklinga með erlendan bakgrunn en einnig yngri einstaklinga sem eru að koma inn í fyrsta skipti.
Þannig er stefnt að því að tryggja að fleiri einstaklingar fái tækifæri til farsællar endurkomu í samfélagið og minnka líkur á endurkomu í fangelsi.