Meta hvernig kveikja megi neistann víðar

Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, og Einar Gunnarsson, skólastjóri …
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, og Einar Gunnarsson, skólastjóri Barnaskólans í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, hefur skipað spretthóp sem ætlað er að meta stöðu tilraunaverkefnisins Kveikjum Neistann, árangur þess og tækifæri og koma með tillögur að möguleikum í þróun verkefnisins í þágu barna hér á landi.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Grunnskóli Vestmannaeyja hóf verkefnið Kveikjum Neistann haustið 2021. Það miðar að heildstæðri nálgun á skólastarfið þar sem áhersla er lögð á grunnfærni í lestri, náttúrufræði og stærðfræði, hugarfar, hreyfingu og áhugahvöt. Sérstök áhersla er lögð á að barnið sé ávallt haft í fyrirrúmi.

Viðbragð við PISA-niðurstöðum

Í tilkynningunni kemur fram að niðurstöður PISA-kannana undanfarin ár hafi sýnt fram á nauðsyn þess að bregðast við stöðu íslenskra barna, m.a. í lesskilningi og stærðfræði.

PISA könnunin er lögð fyrir nemendur í 10. bekk grunnskóla á þriggja ára fresti, nú síðast 14. mars sl. Niðurstöður liggja ekki enn fyrir, en lakar niðurstöður síðustu könnunar þóttu sýna fram á þörf á aðgerðum í menntamálum.

Verkefnið öflugt verkfæri

Í tilkynningunni er haft eftir menntamálaráðherra að kennarar þurfi öflug verkfæri til að takast á við þennan vanda, og að verkefnið Kveikjum Neistann sé einmitt eitt slíkt verkfæri.

Formaður spretthópsins er Tryggvi Hjaltason sem fulltrúi ráðherra. Hópinn skipa þar að auki Vestmannaeyingar sem komið hafa að verkefninu, til dæmis Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyja.

Einnig telur spretthópurinn fulltrúa frá Reykjavíkurborg, fulltrúa frá miðstöð menntunar og skólaþjónustu og starfsmann mennta- og barnamálaráðuneytis.

Til stendur að hópurinn skili ráðherra niðurstöðum með stöðutöku og ráðleggingum um næstu skref fyrir 1. júlí nk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert