Mjög tíðindalítið helgarveður í kortunum

Það verða engin læti í veðrinu um helgina.
Það verða engin læti í veðrinu um helgina. mbl.is/RAX

Veðrið virðist ætla að verða afskaplega rólegt um helgina samkvæmt Birgi Erni Höskuldssyni, vakthafandi veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands.

„Það rignir frekar mikið á Suðausturlandi og Austurfjörðum núna í kvöld og svona eitthvað fram á morgun. Eftir það er róleg helgi fram undan. Hægur vindur, meira og minna skýjað og rigning af og til. Venjulegt veður getum við sagt, hitinn verður á bilinu sex til ellefu stig,“ segir Birgir og bætir við að veðrið verði mjög tíðindalítið.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar kemur fram að lægð á Grænlandshafi stjórni veðrinu hjá okkur í dag og skil frá henni eru nú síðdegis yfir austurhluta landsins. Þar er því víða rigning, sums staðar úrhellisrigning á Suðausturlandi- og Austfjörðum, en vestanlands eru einungis stöku súldarbakkar á sveimi. Í kvöld og nótt dregur úr vætu fyrir austan.

Um helgina er svo útlit fyrir tíðindalítið veður á landinu, fremur hægur vindur og einhver rigning af og til í flestum landshlutum, en síðdegis á sunnudag bætir heldur í úrkomu um landið austanvert. Hiti yfirleitt 6 til 11 stig.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert